148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

tollalög.

518. mál
[23:26]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þessa umræðu sem er búin að vera mjög upplýsandi og sýnir okkur kannski hversu nauðsynlegt það er í málum af ákveðinni stærðargráðu að taka góða og djúpa umræðu um málin. Þetta er búið að vera mjög upplýsandi.

Það sem ég ræddi hér lítillega í fyrri ræðu minni var hvernig smáríki standa oft á tíðum halloka fyrir stærri heildum og stærri ríkjum. Ég vitnaði m.a. til þess að þau ríki sem eru okkur samferða í þessum samningi sem er verið að gera núna við 47 fátæku ríki eru heimsmeistarar í nýlendukúgun og eru með aldagamla reynslu í því. Það sýnir okkur að þegar verið er að semja við slíka aðila þarf að gæta sín verulega. Við Íslendingar höfum nýlega mjög bitra reynslu af því sjálf af því að gera mjög slæman samning við Evrópusambandið, tollasamning, sem var gerður nánast upp á einsdæmi þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og við erum núna að bíta úr nálinni með. Það er alveg hróplegt þegar maður horfir á t.d. magnið sem fer á milli í samningunum að Evrópusambandið er að gusa hér inn þúsundum tonna af kjöti, bæði af svíni og nauti, en í staðinn erum við að koma á markað örlitlu magni af skyri, sem er þó einstök afurð og ætti náttúrlega að vera nema fyrir okkar klaufaskap að hluta skrásett íslenskt vörumerki alls staðar, svipað eins og Grikkir lömdu í gegn að fetaostur skyldi vera grískur. Þegar svona aðilar mætast þar sem annar er mjög smár og veikburða en hinn er stór og öflugur er hættan sú að illa fari.

Því var það sem ég var að gjalda varhuga við í ræðu minni áðan að við ættum náttúrlega að kappkosta það og gæta þess í samningum við þessi ríki, sem vissulega standa halloka gagnvart alþjóðasamtökum á borð við þau sem við erum núna í kompaníi með að gera þennan samning, að beita þau ekki sömu meðölum og Evrópusambandið beitti okkur þegar tollasamningurinn var gerður.

Nú var mönnum nokkur vorkunn þegar þetta var gert á sínum tíma vegna þess að Evrópusambandið var búið að draga lappirnar í nokkur misseri að gera þennan samning við Ísland. Það má vera að menn hafi einfaldlega þrotið örendið, menn hafi guggnað í þessum leiðangri vegna þess að samningurinn er alla vega eins og hann var gerður náttúrlega vondur fyrir okkur Íslendinga. Það á eftir að koma betur í ljós.

Það er annað líka sem hefur verið dálítið rætt hér og ég tek undir að flestu leyti, það er hættan við það að þær afurðir sem eru framleiddar í þessum 47 fátæku löndum verði með einhverjum hætti alþjóðavæddar á leiðinni hingað, að uppruni þeirra verði ekki alveg klár, rétt eins og ég benti á áðan með túlípana sem eru fluttir í spírum til Afríku og vaxa þar upp á örskömmum tíma, fara svo til Hollands aftur og í sellófan og eru seldir með hollensku vegabréfi um alla Evrópu. Við höfum fleiri dæmi sem hníga í sömu átt. Ég get nefnt dæmi um finnskan grís sem er þar fæddur en alinn upp í Þýskalandi, slátrað í Póllandi, fluttur aftur til Finnlands og fær finnskt vegabréf um hæl og er seldur hvar sem er í heiminum sem finnskt svín.

Það eru þessir hlutir sem við þurfum að athuga og gaumgæfa að ekki gerist. Það hefur t.d. verið bent á það að kjúklingur sem við höfum flutt inn frosinn frá Danmörku er alls ekki danskur, hann getur verið frá Argentínu eða Tælandi eða hvaðan sem er.

Það er þessi hætta sem við þurfum kannski að aðgæta þegar við erum að gaumgæfa akkúrat þessi mál. Við þurfum að aðgæta að það sé, eins og maður segir, saumað fyrir alla enda í þessu máli. Við þurfum að ganga úr skugga um það þannig að við verðum ekki fyrir áföllum.