148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

tollalög.

518. mál
[23:31]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við erum að ræða afskaplega áhugaverðan samning, þ.e. tollfríðindi á vörur frá lítt þróuðum ríkjum sem teljast vera 47 samkvæmt nýjustu upplýsingum sem ráðherra gaf okkur hér áðan. Ég hef verið að fylgjast með þessari umræðu sem hefur átt sér stað hjá þingmönnum og verið afskaplega athyglisverð og vakna ýmsar spurningar upp.

Það sem ég vildi kannski helst spyrja hv. þingmann að varðar uppruna vörunnar. Nú eiga þessar vörur að vera upprunamerktar frá sínu vanþróaða ríki. Hvað hefur hv. þingmaður fyrir sér í því að ekki sé hægt að treysta slíkri upprunamerkingu? Hann tók svo til orða að þær yrðu alþjóðavæddar á leiðinni hingað. Telur hann að það sé ekkert að marka upprunamerkinguna eða hvað meinar þingmaðurinn með þessu?

Auðvitað er það afskaplega slæmt ef þjóðir, kannski þróaðar þjóðir, grípa þarna inn í og skipta sér af vöruflutningi til þróuðu ríkjanna frá vanþróuðum ríkjum og skara eld að eigin köku. Hvernig sér hann fyrir sér að það gæti gerst?

Það er nú ekki um miklar upphæðir að ræða sem við erum að tala um hér. Hæstv. ráðherra talaði um að þetta myndi nema u.þ.b. 3,5 millj. kr. á ári, þessi innflutningur, við erum ekki að tala um háar upphæðir, en hæstv. ráðherra talaði um að þetta væri virkilega stórt mál fyrir umrædd ríki.