148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

tollalög.

518. mál
[23:33]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir þetta andsvar. Ég held að okkur sé nokkur vandi á höndum með að tryggja það að uppruni sá sem er merktur sé réttur, ekkert sérstaklega frá þessum 47 löndum heldur jafnvel miklu fleirum. Okkur er mikill vandi á höndum að sannreyna að uppruninn sé réttur. Menn hafa nú lent í þessu í sæluríkinu, þ.e. í Evrópusambandinu, sem er draumaland sumra sem hér eru inni.

Ég minnist þess að fyrir þremur, fjórum árum síðan voru nokkuð margar kerrudrógir, gömul aflóga hross, seld sem besta nautakjöt um alla Evrópu. Þetta olli mikilli hneykslan, skiljanlega, þetta eru náttúrlega gróf vörusvik. Ég geri mér ekki alveg grein fyrir því hvernig við eigum að koma í veg fyrir þetta. Gallinn er nefnilega sá að hér á Íslandi erum við ekki sjálf með nógu mikla upprunamerkingu. Það er að vísu kominn vísir að því. Ég veit að ágætt fyrirtæki norður í landi, sem ég hef grun um að sé í uppáhaldi hjá forseta vorum sem hér situr, hefur t.d. verið með upprunamerkt lambakjöt. Það er til mikillar fyrirmyndar vegna þess að auðvitað eigum við að geta gengið að því vísu hvaðan varan er sem við kaupum.

Ég held að við þurfum að taka verulega vel til hjá okkur sjálfum í öllu eftirliti til þess að geta með einlægum hætti komist að því og gengið úr skugga um að það sem við erum að flytja inn til okkar sé raunverulega sú vara sem hún er sögð vera á umbúðunum.