148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

tollalög.

518. mál
[23:42]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg laukrétt sem hv. þingmaður segir. Ég hafði uppi varnaðarorð á fyrri árum mínum hér á þingi. Ég minntist sögu frá löndunum sunnan Sahara sem voru matvælaframleiðslulönd og fluttu út matvæli. Síðan ráðlögðu bæði erlendir og innlendir spekingar þeim að hætta þessu basli og snúa sér að einhverju arðbærara. Þau hlýddu því kalli og hættu að framleiða matvæli í sama mæli og áður. Síðan gerði þurrkatíð. Um leið og þau voru hætt að framleiða vöruna sjálf hækkaði verðið allt í einu. Menn hafa verið að dásama það hér á Íslandi að geta gengið að erlendu nautakjöti á góðu verði; það er að vísu keypt á góðu verði en það verð skilar sér ekki alveg alla leið til neytenda.

Ég er sannfærður um það að ef þessi innflutningur verður til þess, og það getur vel orðið, að skaða nautakjötsframleiðslu og kúabúskap á Íslandi, þá hækkar verðið sem sem okkur er boðið. Það er nákvæmlega það sem gerðist í löndunum sunnan Sahara. Um leið og þau voru hætt að framleiða mat sem dugði fyrir þau hækkuðu nágrannarnir verðið og hungurvofan lét á sér kræla þar. Það myndi náttúrlega ekki gerast hér, en það er næsta víst að við gætum verið ofurseld þessu og erum náttúrlega þegar orðin það að hluta, því að það er verið að flytja inn svín og naut frá þeim svæðum í Evrópu þar sem ein mesta sýklalyfjagjöfin er. Þannig að við erum vissulega í hættu við þetta. Við heyrum það líka á fulltrúum þessara framleiðenda, bæði kúabænda og svínabænda, að þeir eru uggandi um sinn hag.