148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

tollalög.

518. mál
[23:44]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er svolítið lýsandi fyrir þessa hættu að mér skilst að umframframleiðsla eins dansks mjólkurbús, eins dansks mjólkurframleiðanda sem fer stundum fram úr sér í framleiðslunni, eins og gengur, gæti dekkað markaðinn á Íslandi. Þeir gætu tæknilega séð, ef allt væri hér opið, hrúgað umframframleiðslu sinni eitt árið, eitt misserið, inn á íslenska markaðinn, rústað framleiðslugetu okkar og markaðnum og eftir stæði jafnvel rjúkandi rúst. Svo færu þeir eitthvað annað eða hækkuðu verðið eins og hv. þingmaður benti á.

Hlýtur þetta ekki að valda okkur áhyggjum, sérstaklega í ljósi þess sem höfum séð til þessarar ríkisstjórnar í landbúnaðarmálum og málefnum sem tengjast matvælaframleiðslu á Íslandi? Ef hv. þingmaður hefur kynnt sér ályktanir Sjálfstæðisflokksins eftir nýafstaðinn landsfund þess flokks hlýtur honum að hafa brugðið eins og mér, því að þar var megináherslan lögð á samdrátt.

Hvað varðar Framsóknarflokkinn þá held ég reyndar að hann hafi ekki ályktað á sínu flokksþingi um landbúnaðarmál, enda fór flokkurinn ekki með landbúnaðrráðuneytið; kunni ekki við að álykta um málaflokk sem heyrði undir ráðherra Sjálfstæðisflokksins. En hvað um það. Við sjáum á stefnu þessarar ríkisstjórnar og gjörðum að hún, ólíkt því sem einhverjir voru kannski að vonast til, virðist ekki vera reiðubúin til þess að verja íslenska matvælaframleiðslu. Þvert á móti leggur hún hér fram fjármálaáætlun þar sem gert er ráð fyrir viðvarandi niðurskurði í stuðningi við landbúnað á Íslandi. Með öðrum orðum, viðvarandi lækkun á kjörum bænda og þar af leiðandi verði staða íslensks landbúnaðar smátt og smátt veikt. Við verðum þá væntanlega enn opnari fyrir þeim þrýstingi sem er vissulega til staðar að utan.