148. löggjafarþing — 61. fundur,  9. maí 2018.

störf þingsins.

[15:09]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Við hv. þingmaður erum greinilega á sömu slóðum. Á dögunum skilaði starfshópur á vegum embættis landlæknis tillögum til heilbrigðisráðherra að aðgerðaáætlun til að fækka sjálfsvígum á Íslandi. Um er að ræða aðgerðaáætlun með yfir 50 aðgerðir í sex liðum og nær bæði til almennra samfélagslegra aðgerða, eins og að efla uppeldisskilyrði barna, geðrækt í skólastarfi og áfengis- og vímuefnaforvarnir, og svo sértækra aðgerða sem beinast að sérstökum áhættuhópum og takmörkun aðgengis að hættulegum efnum og aðstæðum.

Áherslurnar samræmast því að verndandi og áhættuþættir sjálfsvíga skapast yfir langan tíma í lífi einstaklinga og árangursríkar forvarnir þurfa að beinast bæði að almennum og afmörkuðum þáttum. Þá er einmitt vert að nefna að Píeta, sem hér var fjallað um áðan, samtök sem hafa helgað sig því að vinna gegn sjálfsvígum og sjálfsskaða, bjóða upp á ókeypis úrræði fyrir einstaklinga sem eru í sjálfsvígshugleiðingum, þá sem hafa stundað sjálfsskaða og líka fyrir aðstandendur og þá sem hafa misst ástvini í sjálfsvígi.

Það er talið að í kringum 5.000 einstaklingar, 15 af hverjum 1.000 Íslendingum, íhugi sjálfsvíg á hverju ári. Kjörorð þeirra eru „Segðu það upphátt“ en með því er minnt á mikilvægi þess að tala opinskátt um hlutina og nýta bæði vini og annað bakland til þess. Aðstoðin er til staðar.

Einmitt næsta laugardag standa Píeta-samtökin í samvinnu við Landsnet fyrir göngunni „Úr myrkrinu í ljósið“ í þriðja sinn. Gengið er í minningu þeirra sem hafa tekið eigið líf og til að efla von þeirra sem eiga um sárt að binda vegna vanlíðunar, sjálfsvígshugsana eða sjálfsskaðahugsana.

Það verður gengið á þremur stöðum í ár, í Reykjavík, á Akureyri og Ísafirði. Ég hvet, eins og hv. þingmaður á undan mér, þá sem hafa tækifæri til að taka þátt. Það er hægt að finna nánari upplýsingar bæði á fésbókarsíðu Píeta og líka á heimasíðu þeirra. Myllumerkið er #segðuþaðupphátt.