148. löggjafarþing — 61. fundur,  9. maí 2018.

störf þingsins.

[15:26]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Forseti. Á vefsíðu Ríkisútvarpsins í dag má sjá að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu metur frásögn Önnu Katrínar Snorradóttur, af brotum Róberts Downeys gegn henni, trúverðuga en hefur látið málið niður falla vegna þess að meint brot voru fyrnd. Anna Katrín kærði Róbert Downey fyrir kynferðisbrot í fyrrasumar þegar í ljós kom að hann hefði fengið uppreist æru vegna kynferðisbrota sem hann framdi gegn fimm stúlkum. Við vitum nú að símanúmer Önnu Katrínar var að finna í minnisbók Róberts sem hafði að geyma 335 kvenmannsnöfn, víða merkt tölum sem líklegast tákna aldur stúlknanna. Niðurstöðuna telur Anna til marks um hroðvirkni lögreglunnar við rannsókn málanna fimm á sínum tíma en orðrétt segir Anna Katrín í samtali við RÚV, með leyfi forseta:

„Það hefði verið svo auðvelt fyrir lögregluna þegar þeir fundu minnisbókina árið 2005 að hringja í mig … að bjóða mér aðstoð og gefa mér færi á að kæra … Það hefði þá verið ári eftir að hann braut á mér 2004. Eitt símtal.“

Lögreglan, sem láðist að hringja í þau 335 nöfn/númer sem í bókinni var að finna, hefur ekki viðurkennt mistök. Maðurinn sem braut á Önnu Katrínu, þegar hún var barn að aldri, getur enn þá sótt sér málflutningsréttindi eins og ekkert sé sjálfsagðara. Dæmdur raðnauðgari getur vegna uppreistar æru sinnar orðið lögmaður á ný.

Ráðherrarnir, sem leyndu Önnu Katrínu og aðra brotaþola Róberts upplýsingum um atburðarásina sem varð þess valdandi að maðurinn sem braut á þeim og mögulega 329 öðrum stúlkum getur gengið að lögmannsréttindum sínum vísum, hafa ekki beðið þær afsökunar. Umræddir ráðherrar eyddu raunar stórum fjárhæðum ríkissjóðs til að rægja þær og þeirra baráttu á alþjóðavettvangi. Lögunum sem snúa að uppreist æru hefur enn ekki verið breytt, þrátt fyrir loforð þar um.

Ráðherrann sem ber (Forseti hringir.) hvað mesta ábyrgð á þessari stöðu situr áfram í skjóli 33 hv. þingmanna sem bera til hennar fullt traust. Ykkar er ábyrgðin.