148. löggjafarþing — 61. fundur,  9. maí 2018.

afgreiðsla þingmannamála úr nefndum.

[15:43]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Lengi framan af þessu þingi voru aðeins þingmannamál hér til umræðu vegna þess að engin stjórnarmál komu hingað inn. Við vöktum athygli á því þá að það þyrfti að fylgja að þingmannamálin yrðu afgreidd úr nefndum og kæmu til afgreiðslu í þingsal. Við bentum jafnframt á að það kæmi náttúrlega til vandræða og tímaskorts ef síðan ætti að hrúga stjórnarfrumvörpunum hér inn í lokin.

Hvað kemur á daginn, herra forseti? Þingmannamálunum er haldið í nefndunum. Þingmannamálin sem héldu hér uppi störfum, sem héldu uppi stjórnmálaumræðu í þessum þingsal framan af þessu þingi, fá ekki að koma úr nefnd. Það á að svæfa þau í nefnd. Þetta eru nýju vinnubrögðin. Þetta er efling Alþingis. Eða hvað, herra forseti? Þetta gengur ekki.