148. löggjafarþing — 61. fundur,  9. maí 2018.

afgreiðsla þingmannamála úr nefndum.

[15:52]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Ég ætla ekki að tefja þessa umræðu mikið sem hér fer fram af litlu tilefni. Það mætti halda á máli manna að lýðræðið hefði verið tekið úr sambandi á Alþingi og upp komin gríðarleg skoðanakúgun og ég veit ekki hvað og hvað. Það eina sem var í gangi, og viðræður hafa átt sér stað um milli formanna þingflokka, snerist um að þessir tveir dagar sem þingið starfar, í gær og í dag, fram að hálfsmánaðarhléi yrðu notaðir til þess að klára það sem tiltölulega gott samkomulag væri um; væri ekki ágreiningsmikið og myndi ekki kalla á miklar umræður. Hugmyndir voru um það að taka einhver fyrstu umræðu mál sem hægt væri að senda til nefnda og nýta þennan hálfa mánuð til að fá umsagnir. Af hálfu ýmissa stjórnarandstöðuflokka vildu menn frekar taka mál úr nefndum. Það var auðvitað rætt hvort það væru mál sem kölluðu á miklar umræður eða ekki. Það var nú sitt á hvað hjá stjórnarandstöðunni. Niðurstaðan varð sú að ekki náðist samkomulag (Forseti hringir.) í þessu.

En í öllum þessum æsingi verða menn að hafa í huga að þinginu er ekki lokið. Það er einungis um það að ræða að ekki verða þingfundir í tvær vikur. Þingið tekur aftur til starfa 28. maí, þannig að (Forseti hringir.) ekkert af því sem menn hafa verið að gera í nefndum er ónýtt eða slegið út af borðinu.