148. löggjafarþing — 61. fundur,  9. maí 2018.

afgreiðsla þingmannamála úr nefndum.

[15:54]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég verð að taka sömuleiðis undir þau orð sem hér hafa fallið frá hv. þingmönnum stjórnarandstöðunnar, þ.e. um skort á þessum faglegu vinnubrögðum sem voru boðuð af hæstv. ríkisstjórn. Ég verð líka að lýsa því að það sætir ákveðinni furðu þegar maður upplifir það í nefnd, t.d. í umhverfis- og samgöngunefnd, að svo virðist sem stjórnarliðar séu beinlínis að koma í veg fyrir að stjórnarfrumvarp komist áfram. Það er staða sem maður átti ekki endilega von á að verða vitni að í nefndum. En svo virðist sem sambúðin sé ekki betri en svo að svona mikil togstreita myndast líka milli stjórnarliða að koma málum, sem eru mörg hver býsna góð og þörf, úr nefndunum. Þá spyr maður: Til hvers erum við eiginlega að þessu, er þetta ekki löggjafarsamkoman þar sem við erum að reyna að gera gagn?