148. löggjafarþing — 61. fundur,  9. maí 2018.

afgreiðsla þingmannamála úr nefndum.

[16:03]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Ég er í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Þar er þetta nákvæmlega svona líka ef það eru einhver mál — og þá varðandi eftirlitshlutverk Alþingis gagnvart framkvæmdarvaldinu — sem við höfum og erum að ræða. Velferðarnefnd er að sinna sínu eftirlitshlutverki gagnvart því hvernig málum er háttað með Barnaverndarstofu og forstjóra hennar. Nú hefur verið umræða um það að hvaða leyti stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd gæti þurft að koma að því því að hún er með ríkara eftirlit með ráðherrunum sjálfum. Þetta mál er allt saman í uppnámi og menn eru á bremsunni, virkilega harkalega á bremsunni. Það tók gríðarlega langan tíma að komast að einhverri niðurstöðu og menn vilja fundarhlé o.s.frv. Upplifunin er mjög skýr í nefndunum eins og landsmenn heyra. Það er allt á bremsunni þegar kemur að því sem minni hlutinn vill gera, jafnvel að sinna sínu eftirlitshlutverki gagnvart framkvæmdarvaldinu. Við nennum þessu ekkert. Ef það er svona sem þessi (Forseti hringir.) meiri hluti ætlar að starfa þá er bara allt frosið hér í þinginu. Þá er það á ábyrgð þessa meiri hluta.