148. löggjafarþing — 61. fundur,  9. maí 2018.

borgaralaun.

[16:06]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Undirstaða hugmyndafræðinnar um borgaralaun á rót sína að rekja í rit Thomas Paine frá 1797 sem nefnist Agrarian Justice. Meginhugmyndin er að verðmæti náttúruauðlinda sem ekki hafa verið framleidd af neinum en sem fámennur hópur hefur sölsað undir sig ættu að dreifast jafnt til allra. Arðinn af þessum auðlindum, sem eru í raun sameiginleg eign allra borgara, ætti að skattleggja og deila. Þessi arður, eða laun, væri eðlilegur og meðfæddur réttur allra borgara. Paine sagði, með leyfi forseta:

„Það er ekki góðgerðarstarfsemi, heldur réttindi, ekki ölmusa heldur réttlæti, sem ég tala fyrir.“

Það eru einmitt þessi hugtök, réttindi og réttlæti, sem liggja að baki hugmyndinni um borgaralaun. Borgaralaun eru einnig þekkt sem skilyrðislaus grunnframfærsla. Ef við ímyndum okkur núverandi bótakerfi án skilyrða og skerðinga erum við í raun að hugsa um borgaralaun. Í sinni einföldustu mynd er hugmyndin sú að hver og einn borgari fái greidda framfærslu, óháð búsetu, stöðu heimilis, aldri, tekjum og án allrar kröfu um að einstaklingur hafi verið í vinnu áður eða sé viljugur að taka þá vinnu sem er í boði.

Árið 1928 spáði breskri hagfræðingurinn John Maynard Keynes því að tækniþróunin yrði slík að vélar ættu eftir að gera vinnuframlag mannfólks óþarft. Eftir 100 ár þyrfti enginn að vinna fyrir afkomu sinni. Keynes sá fyrir sér að maðurinn myndi losna undan þrúgandi efnahagslegum áhyggjum, stóra viðfangsefni komandi kynslóða yrði að nýta frítímann sem tæknin og vísindin ættu eftir að færa þeim til að njóta lífsins skynsamlega og í sátt og samlyndi. Spádómar Keynes um tækniþróunina hafa meira og minna gengið eftir, vélmenni og tölvubúnaður hafa í stórum stíl útrýmt erfiðum og einhæfum störfum, þróunin mun halda áfram.

Í rannsókn frá Oxford-háskóla voru fremstu rannsakendur gervigreindar veraldar spurðir hvenær þeir teldu að gervigreind myndi skara fram úr mannfólki á hinum ýmsu sviðum. Norður-amerískir rannsakendur töldu að gervigreind myndi taka yfir á um 74 árum en asískir kollegar þeirra sögðu að það myndi gerast á næstu 30 árum. Hvernig sem á það er litið mun gervigreind áður en langt er um liðið sýna af sér yfirburðaskilvirkni á flestum ef ekki öllum sviðum. Áskorunin felst í því að snúa þessu okkur í hag. Það gæti orðið mörgum til blessunar og mögulega samfélaginu öllu ef vélmenni tækju við erfiðum og einhæfum störfum. Vandamálið er að laun eru eingöngu tengd við vinnu sem gerir það að verkum að með aukinni sjálfvirknivæðingu er afkoma okkar í hættu. Með sjálfvirkni starfa dreifast tekjur ekki á sama hátt og þær hafa gert. Þegar vélarnar taka við störfum nokkur hundruð manna í fyrirtæki verður öll veltan eftir hjá eigandanum og dreifist ekki til starfsmanna. Að óbreyttu mun þessi þróun stuðla að enn frekari misskiptingu og ójöfnuði.

Hvaða áhrif mun sjálfvirknivæðingin hafa á verkalýðshreyfingu í framtíðinni? Hugsið ykkur hversu erfitt það verður að berjast fyrir auknum tekjum í framtíð þar sem tæknin býður upp á ódýrari og árangursríkari lausnir en mannað vinnuafl. Bætum svo við þessar áhyggjur áhyggjum af hnattvæðingunni og ódýru vinnuafli erlendis. Í núverandi kerfi þar sem tekjur og þar af leiðandi afkoma er háð starfi mun vinnuaflið hafa litla sem enga samningsstöðu. Tekjum verður haldið niðri vegna hættunnar á að störfunum verði annaðhvort útvistað til ódýrara vinnuafls erlendis eða til vélmenna. Ekki verður þetta til að bæta þegar mjög erfiða stöðu á vinnumarkaðinum.

Hvernig valdeflum við launafólk til að bæta stöðu sína á vinnumarkaðinum? Hvernig valdeflum við þá einstaklinga sem eru mestmegnis konur sem sinna ósýnilegu störfunum í samfélaginu, mikilvægustu störfum samfélagsins sem eru ekki metin til fjár í núverandi kerfi? Barnauppeldið, heimilishaldið og önnur ómetanleg sjálfboðavinna sem fer fram á hinum ýmsu sviðum samfélagsins, vinna sem er unnin af ástríðu, þolinmæði og umhyggju.

Skilyrðislaus grunnframfærsla launar þetta ómissandi framlag til samfélagsins, eykur þannig efnahagslegt sjálfstæði kvenna og lyftir fjölskyldum upp úr fátækt. Þessar spurningar og áskoranir framtíðar eru einmitt ástæða þess að lönd víðs vegar um heim eru að skoða og gera tilraunir með borgaralaun. Finnar hafa hrint í framkvæmd tveggja ára tilraun með borgaralaun fyrir atvinnulausa og mun henni ljúka í desember á þessu ári. Tilraun með borgaralaun hófst í Ontario í Kanada fyrir um ári og er markmiðið að rannsaka áhrif á viðkvæma hópa á vinnumarkaði sem og bætta heilsu og menntun lágtekjuhópa með það í huga að tryggja að allir deili hagvexti Ontario. Fjórar borgir í Hollandi hafa sett í gang tveggja ára tilraunir og verið er að skoða að bæta við tilraunum í fleiri borgum. Tilraun hófst í Barcelona í október í fyrra, borgarstjóri Stockton í Kaliforníu hefur tilkynnt tilraun með borgaralaun sem mun hefjast á næsta ári. Einnig er í spilunum að hefja á næstunni stærstu borgaralaunatilraun sögunnar annars staðar í Kaliforníu.

Forseti. Ég lýk þessari samantekt og spyr hæstv. ráðherra hvort hún hafi kynnt sér hugmyndir um borgaralaun og þær tilraunir sem hafa verið gerðar víðs vegar um heim sem og þær sem eru áætlaðar á næstu árum. Nú liggur fyrir þingsályktunartillaga þess efnis að borgaralaun verði skoðuð og niðurstöður af þeirri vinnu geti orðið til þess að opna og þróa umræðu um framtíð almannatryggingakerfisins. Hver er afstaða ráðherra til þingsályktunartillögunnar?