148. löggjafarþing — 61. fundur,  9. maí 2018.

Borgaralaun.

[16:31]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Meðal annars þess vegna leggja Píratar til styttri vinnuviku. Skoðanir sem koma hér fram sýna hversu nauðsynlegt það er að við tökum þessa umræðu. Hér kristallast erfiðleikar okkar við að skilja veldisvöxt, ég verð aðeins að útskýra það á eftir. En til að byrja með eru borgaralaun ekki lágmarkslaun, hvatinn til þess að gera meira er enn til staðar. Það er yfirleitt alltaf hugsað til aukastuðnings fyrir þá sem geta síður hjálpað sér sjálfir eins og vegna örorku o.s.frv., við skulum taka það til hliðar, það er ekki ágreiningsefni sem málið snýst um.

Mig langar að taka dæmi úr sögunni. Það er dæmi um munka sem skrifuðu bækur. Þeirra störf lögðust af þegar prentvélin var fundin upp. Þeir kvörtuðu sáran: Eigum við bara að missa starfið? Myndum við vilja hafa munka í klaustrum úti um allt að skrifa allar bækurnar okkar? Nei, að sjálfsögðu ekki.

Annað dæmi er um hafnarverkafólk. Þegar gámar urðu til náði það að semja þannig að gámarnir yrðu settir á höfnina og að það myndi taka vörurnar úr gámnum og setja í næsta gám sem var síðan settur á vörubílinn og ekið í burtu. Það gekk að sjálfsögðu ekki til lengdar. Það voru kannski tvö ár þar til fólk sá að þetta var bara fáránlegt. Þetta er millibilsvinna þarna sem skiptir máli.

Varðandi veldisvöxtinn, tökum dæmi: Þegar munkarnir voru að missa vinnuna sína bar fólk ættarnöfn sem var starfið þeirra, smiður, skóari o.s.frv. Það er ekki til núna. Það sem við þurfum að átta okkur á er að hraðinn sem það tekur tæknina að læra á ný störf verður alltaf meiri og meiri og meiri. Þau rök að það verði alltaf til ný störf sýna okkur að við áttum okkur ekki á því að þessi nýju störf verða til. En gervigreindin og vélarnar eru þeim mun fljótari að gera þessi nýju störf úrelt, verða sífellt fljótari að því. Það er veruleikinn sem við búum við. (Forseti hringir.) Við getum ekki ímyndað okkur þetta út frá núverandi umhverfi því að líftími starfa verður þá styttri og styttri.