148. löggjafarþing — 61. fundur,  9. maí 2018.

borgaralaun.

[16:50]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Ég þakka umræðuna. Ég hef ekki tíma til að leiðrétta allar þær rangfærslur sem hafa komið hér fram, en mestmegnis hafa þær með hvata að gera og það að fólk sem er í vinnu fái borgaralaun. Fólk borgar náttúrlega skatt og það núllar út borgaralaunin þannig að það er ekki eins og það sé hægt að reikna þetta þannig út.

Forsætisráðherra og aðrir þingmenn settu fram margar spurningar í ræðum sínum og þingsályktunartillagan er einmitt hugsuð til að kalla á niðurstöðu og svör við þeim spurningum.

Svo þurfa borgaralaun ekki að vera viðbragð við mögulega yfirvofandi atvinnuleysi vegna tækniframfara, heldur getur þetta verið val okkar að fara nýja leið vegna þess að tækniframfarir bjóða okkur upp á möguleikann á að gera það.

Borgaralaun gætu orðið til þess að útrýma fátækt og þannig minnkað glæpi, eflt heilbrigði, menntun, lýðræðisþátttöku, sjálfstæði og nýsköpun og myndi hafa þau áhrif að valdefla launafólk. Getan til að segja nei við vinnuveitandann hefði t.d. óneitanlega áhrif á hlutdeild launafólks í hagnaði fyrirtækja með betri launum, starfsskilyrðum, hlunnindum o.fl. Tilraunir með borgaralaun víðs vegar um Norður-Ameríku sýna jafnframt að atvinnuþátttaka og þar með mannauður atvinnulífsins eykst eins og kemur fram í þingsályktunartillögunni.

Er ekki orðið tímabært að slást í hóp með öðrum þjóðum og rannsaka hvort borgaralaun gætu orðið til þess að skapa réttlátara og frjálsara samfélag þar sem allir hafa tækifæri til að dafna, samfélag þar sem við þurfum ekki að kvíða þeirri efnahagslegu óvissu sem felst í því að eldast, veikjast eða verða á einhvern hátt utanveltu í samfélaginu?

Forsætisráðherra sjálf komst vel að orði í ræðu sinni seinasta haust, með leyfi forseta:

„Stjórnmálamenn mega aldrei vísa í ríkjandi kerfi til að rökstyðja bið eftir réttlæti. Stjórnmálamenn þurfa að vera reiðubúnir að beita sér stöðugt fyrir réttlætinu og breyta kerfinu ef það þarf til. Annars er hættan sú að traust fólks á hinu lýðræðislega samfélagi dvíni og þá ábyrgð þurfum við öll að axla.“

Ég fagna því að hæstv. ráðherra finnist þessi hugmynd eiga heima í framtíðarnefndinni. Ég tel það líka, en það þarf ekki að hindra okkur í því að hefja þessa rannsókn núna. Við erum öll með spurningar. Þetta er mikilvægt umræðuefni. Í hvernig samfélagi ætlum við að búa í framtíðinni? Mér finnst að við eigum að fara að skoða það núna strax.