148. löggjafarþing — 61. fundur,  9. maí 2018.

um fundarstjórn.

[17:18]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil hvetja, eins og nokkrir þingmenn hafa gert hér, til þess að málinu um lækkun kosningaaldurs verði komið á dagskrá. Mér finnst ámælisvert að það sé ekki sett aftur á dagskrá.

Áður hefur verið talað um flýtimeðferð. Við höfum lent í því nokkrum sinnum að undanförnu að þurfa að laga lög sem hafa verið gölluð. Það getur alveg gerst að það séu einhverjir gallar og göt í lögum. En þessa galla mátti beinlínis rekja til flýtimeðferðar Alþingis. Það ætti að kenna okkur að við ættum að reyna að forðast að hrúga málum í gegnum þingið til þess að koma í veg fyrir þá augljósu galla sem verða á málum vegna þess.

Svo langar mig að lokum að minnast á það að þegar leið á þingið var um það bil vika eftir af þingmálum í geymslu sem biðu 1. umr. áður en stjórnarþingmálin fóru loksins að koma til þingsins til umræðu. (Forseti hringir.) Vekja má athygli á því að það er um það bil fjöldi þeirra mála sem Píratar hafa lagt fram. Ef Píratar hefðu ekki lagt fram neitt mál hefði þingið einfaldlega verið búið að ræða öll mál og ekkert getað gert því að engin mál biðu afgreiðslu.