148. löggjafarþing — 61. fundur,  9. maí 2018.

um fundarstjórn.

[17:24]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Fyrirsögn eða yfirskrift stjórnarsáttmálans, um að efla ætti þingið alveg sérstaklega, vakti upp einhverjar vonir um breytt vinnubrögð. Ég segi fyrir mig að í þeirri nefnd sem ég sit í hefur verið ágætisvinnufriður og hlutirnir hafa gengið ágætlega fyrir sig. Hins vegar — og kannski einmitt þess vegna — verða það svo mikil vonbrigði, þegar á hólminn er komið, þegar aðeins sjö þingdagar eru eftir samkvæmt starfsáætlun, að þá eru 22 mál á dagskrá í dag og eitt þingmannamál til 1. umr. Það er staðan. Og það eru örfáir dagar eftir af þessu þingi. Það er alveg augljóst að það á að salta þingmannamálin í nefndum. Halda okkur góðum framan af, taka þau til umræðu, kalla inn gesti, en ekki hleypa þeim (Forseti hringir.) úr nefndinni. Hins vegar á að græja stjórnarmálin. Þau eru öll hér á dagskrá.