148. löggjafarþing — 61. fundur,  9. maí 2018.

um fundarstjórn.

[17:39]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegur forseti. Það er alltaf gaman hvað maður verður hissa reglulega. Það er bara fínt. Lífið er skemmtilegt. (Gripið fram í.) Hv. þm. Vilhjálmur Árnason spurði um þingmannamál. Það eru sex þingmannamál sem hafa fengið fulla afgreiðslu hér, þar af eru þrjú frá stjórnarandstöðunni. Öll frá sama flokknum, Viðreisn.

Það er áhugavert að heyra fulltrúa Miðflokksins kalla eftir því að mál komi inn til atkvæðagreiðslu, sem hafa haldið langar ræður um að t.d. 16 ára kosningamálið megi ekki koma til atkvæðagreiðslu heldur verði að vísa ágreiningsmáli eins og slíku til ríkisstjórnarinnar. Ég held að hv. þingmenn Helga Vala Helgadóttir og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir ættu að tala aðeins betur við kollega sína í stjórnarandstöðunni ef þær eru að ýja að því að það sé stjórninni að kenna að 16 ára málið er ekki lengur á dagskrá. Ég myndi spyrja kollega mína í stjórnarandstöðunni í þeirra sporum.

Í gær höfðum við fínan tíma til að ræða ýmis mál. Stjórnarandstaðan talar dálítið eins og hún sé bara ekki með í neinu. Áðan voru sérstakar umræður um borgaralaun, það voru tvö þingmannamál í gær til umræðu, eitt frá Viðreisn. (Forseti hringir.) Óundirbúnar fyrirspurnir, það er búið að lengja þær svo stjórnarandstaðan hafi meiri tíma. Svo höfðum við nú langan tíma, fjóra tíma, (Forseti hringir.) til að ræða afléttingu tolla á vanþróuðustu ríki heims, stjórnarandstöðuflokkarnir tóku fjóra tíma í það í gær. (Forseti hringir.) Ræðum endilega saman fram á nótt. Þetta er gaman.