148. löggjafarþing — 61. fundur,  9. maí 2018.

lengd þingfundar.

[18:11]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Jæja, þá erum við aftur komin á þennan stað. Það styttist í vorið og mál ríkisstjórnarinnar eru seint komin fram. Samt á að taka þau inn með afbrigðum og ræða þau fram á kvöld. Gott og vel, við skulum alveg lengja þingfundinn til þess að ræða mál en þá ræðum við líka málin sem minni hlutinn leggur fram, mál sem núna á ekki einu sinni að taka út úr nefnd. Þar er ekki beitt málefnalegum forsendum. Í raun er verið að segja að jafnvel þótt málin hafi verið unnin og nefndarálit tilbúin ætlum við ekki að taka þau út úr nefndinni og við ætlum ekki að ræða þau hér.

Það sem það þýðir í rauninni er að valdið er forsetans. Hann hefur vald til þess að lengja þingfundi og biðja meiri hlutann um að lengja þingfundi. En það verður ekkert úr því nema samstaða sé í þinginu um að vinna málefnalega. Annars verður ekkert úr þessum tíma. Annars gerist bara nákvæmlega það sama og gerist alltaf á vorin, það verður rætt hér fram á kvöld, fram á nótt ef því er að skipta, yfirleitt hættir umræðan um tólfleytið. Það verður bara rætt og rætt og það verður ekkert úr fundinum. Það græðir enginn á þessu nema, jú, þá verður minni hlutinn þreyttur í málinu o.s.frv. (Forseti hringir.) og á endanum gerist eitthvað. Það kemur ekkert málefnalegt úr því öllu saman. Þá er þetta bara sami dansinn, nákvæmlega sami dansinn. (Forseti hringir.)

Leiðin út úr þessu er sú að við ræðum saman um að vinna málefnalega á þingi. Við höfum kallað eftir því. Fyrsta skrefið er hjá forseta; (Forseti hringir.) að kalla eftir því að mál sem búið er að ljúka umræðu um í nefnd og komin eru nefndarálit um komi úr nefnd. (Forseti hringir.) Forseti hefur vald til þess að gera það. Við getum kannski gert það þegar ég fer á forsetastólinn á eftir, (Forseti hringir.) en þá er ég líklega að misnota vald mitt.