148. löggjafarþing — 61. fundur,  9. maí 2018.

Viðlagatrygging Íslands.

388. mál
[18:18]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S):

Herra forseti. Ég hef lagt fram breytingartillögu á þskj. 965 við efnismálsgrein 16. gr.

Ástæðan fyrir því að ég legg þessa breytingartillögu fram er að í morgun kom ábending frá fjármálaráðuneytinu um að við hefðum í meðförum málsins lagt fram breytingu og gert breytingu, þ.e. efnahags- og viðskiptanefnd, sem gengi kannski fulllangt og er lagt til að við gerum breytingu á því sem við vorum búin að samþykkja: „Náttúruhamfaratrygging Íslands skal notast við skilvirkt kerfi áhættustýringar“ — síðan kom í viðbót — „og tryggja að nægir fjármunir séu til staðar til að standa straum af mögulegum bótakröfum.“ Ég legg til að frá og með „og tryggja að nægir fjármunir séu til staðar“ falli út.

Ástæðan er auðvitað öllum augljós að ef hér gerist eitthvað svo stórkostlegt sem við eigum kannski ekki von á þá stenst þessi grein ekki í sjálfu sér.

Ég vil bara bæta því við að Náttúruhamfaratrygging Íslands, eða gamla viðlagatryggingin, er gríðarlega sterkt fyrirtæki og með greiðslugetu upp á liðlega 80 milljarða og er heimilt að taka 34 milljarða að láni með ríkisábyrgð. Greiðslugetan er því gríðarlega mikil, en við gengum kannski fulllangt. Þess vegna er þessi breytingartillaga lögð fram.

Óska ég eftir að hún fái fljóta og skjóta málsmeðferð.