148. löggjafarþing — 61. fundur,  9. maí 2018.

um fundarstjórn.

[18:37]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Mig langar að ræða um vönduð vinnubrögð. Við vorum áðan að greiða atkvæði um breytingartillögu sem kom hérna skyndilega fram á síðustu stundu með frumvarpi, breytingartillögu sem enginn í þingsalnum hafði séð, breytingartillögu sem einn þingmaður sagði að hann hefði fengið ábendingu um að mistök hefðu verið gerð í málsmeðferð í nefndinni og eftir að mál var tekið úr nefnd. Við áttum hér öll sem greiddum atkvæði að treysta því að þessi einhver úti í bæ sem benti á mistökin hefði rétt fyrir sér eftir að mál var unnið í nefndinni eftir að fjölmargir aðilar sem komu væntanlega fyrir nefndina sendu inn umsagnir o.s.frv. Hvaða vinnubrögð eru þetta, herra forseti? Hvernig eigum við eiginlega að treysta því að við séum ekki að samþykkja einhverja vitleysu? (Forseti hringir.) Ég vil bara ekki taka þátt í svona vitleysu.