148. löggjafarþing — 61. fundur,  9. maí 2018.

um fundarstjórn.

[18:39]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Nú tek ég að sjálfsögðu undir beiðni um að fresta fundi og funda með þingflokksformönnum. Það er augljóslega mjög margt að í fundarstjórn forseta sem hleypir ríkisstjórnarmálum í 1. umr. þrátt fyrir að þau séu allt of seint fram komin; það er verið að sveigja reglurnar í þágu ríkisstjórnarinnar hvað eftir annað á kostnað minni hlutans.

Enn fremur erum við búin að samþykkja framlengdan þingfund í bullandi ágreiningi, eins og hv. þm. Björn Leví Gunnarsson nefnir, og þar að auki eru nefndir þingsins orðnar að óvönduðum afgreiðslustofnunum fyrir duttlunga ráðherra. Þetta er ólíðandi vandamál. Nú hefur forseti í tvígang komið með athugasemdir milli ræðna í fundarstjórn forseta. Það er með ólíkindum að ekki sé hægt að fá upplýsingar um hvað forseti ætlast fyrir án þess að mælendaskrá tæmist úr því að svona athugasemdir koma alltaf hér á milli.