148. löggjafarþing — 61. fundur,  9. maí 2018.

virðisaukaskattur.

562. mál
[19:52]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt, mál nr. 562 á þskj. 885. Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um virðisaukaskatt.

Í fyrsta lagi eru lagðar til breytingar á ákvæðum laganna um kaup og sölu á þjónustu milli landa. Í kjölfar alþjóðlegrar þróunar á sviði virðisaukaskatts, m.a. vegna mikilla umsvifa í rafrænum viðskiptum á netinu, eru nú lagðar til breytingar á ákvæðum laganna um kaup og sölu á þjónustu milli landa. Breytingarnar eru að mestu leyti byggðar á skýrslu starfshóps um kaup og sölu á vöru og þjónustu milli landa en skýrslu þeirri var skilað til hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra í október árið 2016.

Í breytingunum felst að sú meginregla verður innleidd að skattlagningarstaður á veitingu þjónustu í milliríkjaviðskiptum verður sá staður þar sem neysla þjónustunnar á sér stað, út frá búsetu kaupanda þjónustunnar. Í dag er skattlagningarstaður þjónustu eingöngu miðaður við nýtingu hennar, en það getur verið erfitt að meta í öllum tilvikum.

Breytingin leiðir því til einföldunar á skattframkvæmd, en með henni verður ekki lengur fyrir hendi sama þörf á að greina og leggja mat á viðskiptasamninga til þess að leiða í ljós hvar þjónusta teljist vera nýtt.

Við breytingarnar er tekið mið af alþjóðlegum leiðbeiningarreglum OECD í þessum efnum og skýrslu stofnunarinnar um árangursríka innheimtu virðisaukaskatts í milliríkjaviðskiptum. Samhliða þeim breytingum sem lagðar eru til vegna kaupa og sölu þjónustu milli landa er lagt til að erlendum atvinnufyrirtækjum sem selja innlendum aðilum hér á landi blöð og tímarit í áskrift á pappírsformi verði gert skylt að innheimta og skila virðisaukaskatti af þeirri sölu hér á landi.

Í öðru lagi eru lagðar til breytingar á ákvæðum laganna um rafræna sölu og áskriftir á tímaritum og fréttablöðum. Um er að ræða breytingar sem byggðar eru á tillögum nefndar um bætt rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla, en nefndin skilaði skýrslu til hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra þann 25. janúar síðastliðinn.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er lagt upp með að endurskoðun fari fram á skattalegu umhverfi tónlistar, íslensks ritmáls og fjölmiðla. Í stjórnarsáttmálunum kemur m.a. fram að ríkisstjórnin vilji bæta starfsumhverfi fjölmiðla, t.d. með endurskoðun á skattalegu umhverfi þeirra. Þann 25. janúar 2018 skilaði nefnd um bætt rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla skýrslu til hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra um tillögur að breytingum á lögum og öðrum aðgerðum til að bæta og styrkja rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla hér á landi. Ein af tillögum nefndarinnar sem samhljómur var um meðal nefndarmanna laut að samræmingu á virðisaukaskatti á sölu og áskriftir dagblaða, tímarita og landsmála- og héraðsfréttablaða, hvort sem slík tímarit væru á prentuðu eða á rafrænu formi. Slík samræming væri brýn, sérstaklega út frá samkeppnissjónarmiðum, en yfirleitt væri um sömu eða mjög sambærilega þjónustu að ræða, hvort sem efninu væri miðlað á prenti eða rafrænt. Í ljósi þessa er lagt til í frumvarpinu að stigið verði skref í átt að bættu rekstrarumhverfi fjölmiðla hér á landi með samræmingu á skattlagningu á virðisaukaskatti á sölu og áskriftir dagblaða, tímarita og landsmála- og héraðsfréttablaða, hvort heldur sem útgáfuform miðlanna er á prentuðu eða rafrænu formi. Sú samræming er í anda leiðbeiningarreglna OECD sem leggur áherslu á að skattlagning skuli vera hlutlaus og sanngjörn, eins og það er kallað, milli rafrænna og hefðbundinna viðskipta. Með breytingunni verða rafrænar áskriftir og rafræn sala tímarita, dagblaða og landsmála- og héraðsfréttablaða skattlagðar með sama hætti, þ.e. í 11% þrepi, en áður var rafræn sala og áskriftir fréttablaða í 24% þrepi.

Í þriðja lagi eru lagðar til breytingar á ákvæðum laganna um heimild ferðaþjónustuleyfishafa til færslu innskatts af aðföngum sínum vegna öflunar og reksturs fólksbifreiða hér á landi í atvinnuskyni. Um er að ræða nauðsynlegar breytingar til að tryggja að ferðaþjónustuaðilum sem annast fólksflutninga á fólksbifreiðum í atvinnuskyni verði gert mögulegt að færa innskatt á móti útskatti við uppgjör virðisaukaskatts vegna kaupa á aðföngum til reksturs þeirra fólksbifreiða sem eingöngu eru notaðar í atvinnurekstri og virðisaukaskattsskyldri starfsemi ferðaþjónustuaðila.

Í frumvarpinu er þannig lagt til að ferðaþjónustuaðilar sem uppfylla skilyrði laga nr. 28/2017, um farþegaflutninga og farmflutninga á landi, og hafa fengið útgefið sérstakt ferðaþjónustuleyfi frá Samgöngustofu og uppfylla að öðru leyti skilyrði laganna öðlist nú heimild til færslu innskatts vegna kaupa á aðföngum sem tengjast öflun og rekstri þeirra fólksbifreiða sem að öllu leyti eru nýttar í virðisaukaskattsskyldum rekstri ferðaþjónustuleyfishafa.

Ég vil vekja athygli á því að gert er ráð fyrir að frumvarpið öðlist gildi 1. júlí 2018 en þau ákvæði sem varða kaup og sölu á vörum og þjónustu milli landa taki þó ekki gildi fyrr en 1. janúar 2019 í ljósi þeirra breytinga sem þar um ræðir.

Ég vil þá að lokum, virðulegur forseti, leggja til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar að aflokinni þessari umræðu og svo til 2. umr.