148. löggjafarþing — 61. fundur,  9. maí 2018.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 186/2017 um breytingu á XVII. viðauka við EES-samninginn.

545. mál
[19:59]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Með þessari þingsályktunartillögu er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 186/2017 um breytingu á XVII. viðauka við EES-samninginn um hugverkaréttindi og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2014/26 frá 26. febrúar 2014 um sameiginlega umsýslu höfundaréttar og skyldra réttinda og leyfisveitingar yfir landamæri vegna netnotkunar á tónverkum á innri markaðnum.

Markmið tilskipunarinnar er að samræma starfshætti rétthafasamtaka með því að setja samræmdar reglur um starfsramma er varðar stjórnskipulag, skipan fjármála, gegnsæi og upplýsingagjöf. Reglunum er ætlað að tryggja þátttöku rétthafa í ákvarðanaferli rétthafasamtaka og upplýsingaflæði til rétthafa, rétthafasamtaka, þjónustuveitenda og almennings. Réttindi rétthafa skulu þannig vera tilgreind í samþykktum viðkomandi samtaka auk þess sem rétthafar geta valið sér rétthafasamtök án tillits til ríkisborgararéttar eða búsetu. Þá er það jafnframt markmið tilskipunarinnar að koma á samræmdum reglum um fjölþjóðleg leyfi sem veitt verða af rétthafasamtökum um afnot af tónlist á netinu í þeim tilgangi að tryggja aukið framboð slíkrar þjónustu. Tilskipunin tilgreinir í því skyni þær kröfur sem rétthafasamtök, sem munu geta veitt slíkt leyfi, þurfa að uppfylla. Tilskipunin nær til allra rétthafasamtaka sem falla undir skilgreiningu hennar, óháð stærð þeirra.

Tilskipunin hefur fengið umfjöllun í allsherjar- og menntamálanefnd og setti hún fram sjónarmið sín í áliti. Þar vísar nefndin til þess að þær kröfur sem tilskipunin gerir eru sérstaklega íþyngjandi fyrir íslensk rétthafasamtök í ljósi smæðar þeirra og taldi mikilvægast að líta sérstaklega til þeirra áhrifa sem innleiðing felur í sér fyrir íslensk rétthafasamtök. Nefndin taldi rétt að óskað yrði eftir aðlögun að þeim þáttum tilskipunarinnar sem reynst geta íslenskum samtökum á þessu sviði íþyngjandi. Utanríkismálanefnd tók undir þessi sjónarmið allsherjar- og menntamálanefndar.

Í kjölfar framangreinds álits áttu fulltrúar mennta- og menningarmálaráðuneytisins og utanríkisráðuneytisins fund með þeirri stjórnarskrifstofu framkvæmdastjórnar ESB sem fer með málefni hugverkaréttar. Á fundinum voru kannaðar undirtektir við þeirri aðlögun sem nefndir þingsins vísuðu til. Fulltrúar framkvæmdastjórnarinnar lýstu þeirri eindregnu afstöðu sinni að öllum slíkum óskum um aðlögun yrði hafnað. Var vísað til þess að í umræðum um tillögu að tilskipuninni hjá stofnunum ESB hefðu komið fram sambærilegar óskir um undanþágur fyrir höfundaréttarsamtök í smáríkjum innan ESB, t.d. Möltu. Þeim óskum hafði hins vegar verið hafnað með þeim rökum að slíkar undanþágur mundu ganga gegn markmiðum tilskipunarinnar.

Þar sem beiðni Íslands um efnislega aðlögun skilaði ekki árangri ákváðu íslensk stjórnvöld að óska eftir tímabundinni aðlögun frá tilskipuninni með þeim hætti að frestað yrði gildistöku íþyngjandi ákvæða hennar um skýrslugerð rétthafasamtaka, þannig að miðað yrði við fjárhagsárið 2019 í stað 2018 í aðlögunartexta sameiginlegu EES-nefndarinnar.

Í ljósi þess hversu umræðan um upptöku þessarar tilskipunar hefur dregist á langinn mun tilskipunin hins vegar ekki taka gildi meðal EFTA-ríkjanna innan EES fyrr en á næsta ári. Því munu kröfur um skýrslugerð rétthafasamtaka ekki gilda fyrr en fjárhagsárið 2019. Það er í samræmi við afstöðu Íslands.

Með vísan til þessa varð niðurstaða sérfræðinga EFTA-ríkjanna sú að sérstakur aðlögunartexti um frestun á gildistöku íþyngjandi ákvæða væri ekki lengur nauðsynlegur.

Þar sem innleiðing tilskipunarinnar kallar á lagabreytingar hér á landi var umrædd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar tekin með stjórnskipulegum fyrirvara af hálfu Íslands. Samkvæmt lögum um þingsköp Alþingis ber að aflétta slíkum fyrirvara með þingsályktunartillögu. Því er óskað eftir samþykki Alþingis fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felst svo aflétta megi hinum stjórnskipulega fyrirvara.

Ég legg til, virðulegi forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögu þessari vísað til hv. utanríkismálanefndar.