148. löggjafarþing — 61. fundur,  9. maí 2018.

tollalög.

581. mál
[20:08]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi á þskj. 936, mál nr. 581. Þar er um að ræða frumvarp til laga um breytingu á tollalögum, nr. 88/2005, sem fjallar um upprunatengda osta og móðurmjólk. Frumvarpið er samið í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.

Annars vegar felur frumvarpið í sér að móðurmjólk sem flutt er inn vegna hvítvoðunga verði tollfrjáls með þeim hætti að lögð er til breyting á viðauka I með tollalögum þar sem bætt er við nýju tollskrárnúmeri fyrir móðurmjólk fyrir hvítvoðunga.

Tilefni þessarar breytingar er erindi frá Landspítalanum til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins vegna innflutnings spítalans frá Danmörku á móðurmjólk fyrir fyrirbura. Landspítalinn hefur flutt slíka mjólk inn frosna með hraðpósti, að meðaltali 37 lítra á ári. Þess var farið á leit að felldir væru niður tollar vegna innflutningsins.

Hins vegar er í frumvarpinu lagt til að heildaraukning tollkvóta vegna upprunatengdra osta verði heimiluð strax á gildistökuári Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur, þ.e. á árinu 2018 í stað þess að heildaraukningunni verði náð á fjórum árum.

Samkvæmt fyrrgreindum samningi, sem tók gildi þann 1. maí síðastliðinn, var meðal annars samið um 210 tonna viðbótartollkvóta fyrir upprunatengda osta sem átti að koma til framkvæmdar á næstu fjórum árum. Fyrir gildistöku samningsins var tollkvóti á upprunatengdum ostum 20 tonn. Samkvæmt samningnum áttu 55 tonn að bætast við á ári fyrstu þrjú árin og 45 tonn árið 2021. Heildarkvóti yrði þá kominn í 230 tonn að liðnum fjórum árum frá gildistöku. Samkvæmt frumvarpinu verður innleiðingu tollkvótanna hraðað í samræmi við vilja þáverandi meiri hluta atvinnuveganefndar við breytingu á búvörulögum árið 2016.

Umræddir ostar falla undir vörulið 0406 samkvæmt tollskrá í viðauka I við tollalög og njóta sérstakrar upprunaverndar hjá ESB og fleirum. Sem dæmi um upprunatengda osta má nefna Parmesan og Gruyère, sem er franskur ostur — ég efast um að framburður minn sé fullkominn á þessu orði, en ég skýri það hér með að þetta er franskur ostur sem þarna er átt við. Skilyrði innflutningsins innan tollkvóta eru þau að ostarnir beri sérstaka upprunamerkingu. Upprunatengdir ostar eru ekki framleiddir á Íslandi en framleiðsla þessara osta byggir á langri hefð og er með ákveðna skírskotun til upprunasvæðisins eða -lands. Hér er því um að ræða vöru sem ekki er í beinni samkeppni við íslenskar landbúnaðarafurðir heldur er verið að auka vöruúrval til hagsbóta fyrir neytendur.

Ekki liggja fyrir upplýsingar um stærð markaðarins hér á landi fyrir upprunatengda osta en við úthlutun sem fór fram 1. maí síðastliðinn voru heildarumsóknir 136 tonn en í boði voru 36,7 tonn. Á grundvelli gildandi reglna var þessum kvóta úthlutað með hlutkesti en þó þannig að hver aðili hlaut að hámarki 15% af heildarmagni.

Í áðurnefndu nefndaráliti meiri hluta atvinnuveganefndar um frumvarp til laga um breytingu á búvörulögum, búnaðarlögum og tollalögum (búvörusamningar, búnaðarlagasamningur), árið 2016, kom fram að meiri hluti nefndarinnar hefði sammælst um það við ráðherra að hraða innleiðingu á auknum kvótum vegna innflutnings á sérostum, upprunatengdum ostum, þannig að hún komi til framkvæmda á fyrsta ári gildistíma fyrrgreinds samnings. Hins vegar lagði nefndin ekki til lagabreytingar um að flýta innleiðingunni. Samhliða var því beint til ráðherra að aðgangsheimildum á innri markaði Evrópusambandsins fyrir mjólkurafurðir yrði einnig hraðað eins og mögulegt væri enda byggðu slík ákvæði á gagnkvæmum aðgangsheimildum. Í því sambandi hefur sú spurning komið fram hvort íslensk stjórnvöld hafi leitað eftir breytingu á samningnum við ESB þess efnis að flýta innleiðingu þeim megin. Því er til að svara að atvinnuvegaráðuneytið hefur ekki tekið þessar viðræður upp við Evrópusambandið enda fer það ráðuneyti ekki með samningsumboð Íslands í slíkum samningum en ég mun beita mér fyrir því að þetta verði kannað. Þó ber að hafa í huga að samningurinn sem hér um ræðir tók langan tíma í vinnu. Vinna við hann hófst á árinu 2012. Ef hefði átt að reyna að breyta samningnum eftir undirritun hans, sem fór fram í september árið 2015, hefði það án efa seinkað gildistöku samningsins að minnsta kosti um tvö til fjögur ár ef það á annað borð hefði verið hægt.

Til þess að heimilt sé að hverfa frá ákvæðum samningsins að því leyti sem hér um ræðir og heimila heildaraukningu tollkvóta vegna upprunatengdra osta strax á gildistökuári samningsins í stað þess að það sé gert í þrepum á fjórum árum er sú lagabreyting sem lögð er til í frumvarpinu varðandi upprunatengda osta nauðsynleg. Afleiðingar af samþykkt frumvarpsins hljóta að teljast almenningi til hagsbóta þar sem tryggt verður að heildaraukning tollkvóta vegna upprunatengdra osta verði innleidd strax í stað þess að það sé gert í þrepum á fjórum árum. Ekki er um að ræða fjárhagsleg áhrif vegna hraðari innleiðingar á tollkvótum þar sem kvótinn ber engan toll og honum er úthlutað eftir hlutkesti, samanber 1. mgr. 65. gr. B búvörulaga, nr. 99/1993.

Einnig verður að telja það til hagsbóta fyrir almenning ef móðurmjólk sem flutt er inn vegna hvítvoðunga verður tollfrjáls. Þess má geta að innflutningur síðastliðinna ára hefur að meðaltali verið 37 lítrar á ári. Ekki mikill. Námu tolltekjur af móðurmjólkinni á árinu 2017 37.000 kr.

Virðulegi forseti. Ég hef rakið meginefni þessa frumvarps og vil að öðru leyti vísa til þeirrar greinargerðar sem fylgir því en þar er ítarlegar fjallað um efni þess. Að lokinni umræðu hér legg ég til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. atvinnuveganefndar til umfjöllunar.