148. löggjafarþing — 61. fundur,  9. maí 2018.

útlendingar og Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi.

564. mál
[20:33]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra þessa yfirferð á því máli sem er til umræðu hér, frumvarpi til laga um breytingu á lögum um útlendinga; kannski sá þáttur sem snýr hvað helst að mínu áhugasviði.

Ég rek augun í nokkra hluti, þegar kemur að þessu frumvarpi, og langar til að byrja með að spyrja ráðherra aðeins út í samráð og samráðsferli og það matsferli sem fór fram áður en frumvarpið var lagt fram. Spurningar mínar snúa einna helst að 1.–3. gr. frumvarpsins en þær þykja mér allar kveða á um ákveðnar breytingar á málsmeðferð í þessum málaflokki.

Hér er verið að fella út tvö tækifæri útlendinga til að mæta fyrir Útlendingastofnun, heimila miðlun á mjög persónulegum upplýsingum í 2. gr. og í 1. gr., sem ég hefði kannski fyrst átt að minnast á, er talað fyrir breyttri málsmeðferð hjá kærunefnd útlendingamála. Það er þessi 3. gr. sem hefur með málsmeðferðina að gera, hvað það varðar að geta mætt fyrir Útlendingastofnun í tvígang áður en ákvörðun er tekin efnislega án aðkomu viðkomandi.

Í 3. og 4. lið greinargerðarinnar rek ég augun í að vikið er að samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar. Í 4. lið kemur fram að eina samráðið sem í raun og veru hafi verið haft um þetta frumvarp hafi verið við ríkislögreglustjóra, lögregluna á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum, kærunefnd útlendingamála og Útlendingastofnun en að ekki hafi þótt ástæða til frekara samráðs. Ég spyr mig hvort ekki hefði verið eðlilegt að leita samráðs við Persónuvernd sem og við Rauða kross Íslands þar sem um breytingu á málsmeðferðarreglum er að ræða. Sömuleiðis hefði mér þótt eðlilegt, og fæ kannski að heyra hugleiðingar hæstv. ráðherra um það, að velta fyrir sér, eða skoða það alla vega, hvort þessi breyting á málsmeðferðarreglum standist alveg örugglega okkar alþjóðlegu skuldbindingar.