148. löggjafarþing — 61. fundur,  9. maí 2018.

útlendingar og Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi.

564. mál
[20:42]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Við ræðum hér um breytingu á lögum um útlendinga og lögum um Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi. Ég vil segja í upphafi að þetta frumvarp var afgreitt úr þingflokki Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs með fyrirvara. Hann lýtur einmitt ekki síst að 3. gr. frumvarpsins um boðun útlendinga í viðtal hjá Útlendingastofnun. Ég tel að það sé grein sem hv. allsherjar- og menntamálanefnd þurfi að fara einstaklega vel yfir. Það verður að vera alveg skýrt að boðunin sé með þeim hætti að sá eða sú sem er boðuð í viðtal átti sig á mikilvægi þess sem er að fara að gerast í viðtalinu og eins að það sé engum vafa undirorpið að hægt sé að hafa lögmætar ástæður fyrir því að komast ekki í viðtal.

Þetta er atriði sem ég tel að þurfi að fara mjög vel ofan í.

Það er fleira sem ég tel að nefndin verði að skoða mjög vel. Eins og segir í kafla um samráð var leitað til ríkislögreglustjóra, lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, lögreglunnar á Suðurnesjum, kærunefndar útlendingamála og Útlendingastofnunar við gerð þessa frumvarps. Það eru því aðilar sem koma mjög náið að þessum málum sem ekki var haft samráð við en eru málsvarar, ef svo má segja, þess fólks sem þessi lög gilda um og munu gilda um ef frumvarpið verður samþykkt. Þar vil ég sérstaklega nefna Rauða kross Íslands. Þeir hafa jú verið talsmenn hælisleitenda í ýmsum málum. Í 2. gr. er verið að fjalla um að heimilt verði að samkeyra persónuupplýsingar, að því er ég held reyndar í góðum tilgangi, til að tryggja hagsmuni barna, og því er mjög mikilvægt að ræða þetta, hvernig um þessi mál er búið, við Persónuvernd. Síðast en ekki síst tel ég mjög mikilvægt að þeir aðilar sem við höfum falið að vera sérstakir talsmenn og standa vörð um réttindi barna, svo sem umboðsmaður barna og Barnaverndarstofa, verði kallaðir á fund nefndarinnar til að fjalla sérstaklega um það sem snýr að börnum í frumvarpinu. Ef hælisleitendur eru viðkvæmur hópur held ég að það verði að segja að börn í hópi hælisleitenda séu alveg sérstaklega viðkvæmur hópur sem okkur ber skylda til að líta sérstaklega til að fjallað sé um með mjög vönduðum hætti.

Svo kunna auðvitað að vera fleiri atriði í frumvarpinu sem við nánari skoðun kemur í ljós að kafa þurfi ofan í. En það verður spennandi að takast á við það. Ég held að allsherjar- og menntamálanefnd geti farið í mjög góða vinnu við þetta mál. Ef það er eitthvað sem þarf að laga enn frekar til þá gangi þingnefndin í það mál. Vonandi getum við þá samþykkt það einhvern tíma síðar á þessu vormisseri.