148. löggjafarþing — 62. fundur,  28. maí 2018.

stjórnsýsla ferðamála.

[15:44]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Herra forseti. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar til Alþingis um stjórnsýslu ferðamála sem gefin var út í október á síðasta ári er óhætt að segja að felldur hafi verið áfellisdómur yfir stjórnsýslu ferðamála á Íslandi sem síðustu fimm ár hefur verið undir forystu Sjálfstæðisflokksins.

Í skýrslunni kemur fram að að mati Ríkisendurskoðunar sé ábyrgðar- og hlutverkaskipting innan stjórnsýslu ferðamála óskýr og ekki að öllu leyti í samræmi við gildandi lög um skipan ferðamála. Stjórnstöð ferðamála, sem sett var á laggirnar í árslok 2015, hafi ekki orðið til þess að einfalda málið og að rík þörf sé á að skýra hlutverka- og ábyrgðarskiptingu innan málaflokksins til að auka samhæfingu og takast á við breytt umhverfi ferðaþjónustunnar og nýjar áskoranir. Ríkisendurskoðun gengur svo langt að hvetja atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið til að auka hagkvæmni og skilvirkni í kerfinu sem þurfi verulega að gera. Þá þurfi að skýra mjög hlutverk þeirra sem sinna kynningar- og markaðsmálum. Er þar sérstaklega nefnt að innlent markaðsstarf hafi orðið út undan og að skýra þurfi hlutverk þeirra aðila sem koma að markaðs- og kynningarmálum og aðkomu ríkisins að starfsemi þeim tengdum.

Allt eru þetta mjög alvarlegar ábendingar. Mig langar því að spyrja hæstv. ferðamálaráðherra hvað hæstv. ráðherra hafi gert til þess að laga stjórnsýslu ferðamála og til að fara eftir þeim ábendingum og tilmælum sem Ríkisendurskoðun lagði til í október sl.

Ég minni á að ráðherrar eru dæmdir af verkum sínum en ekki síður af verkleysi. Fátt hefur komið fram í þinginu sem bendir til þess að eitthvað sé að gerast í þessum málum. Við höfum ekki efni á því að skila auðu í ferðamálum eins og Sjálfstæðisflokkurinn hefur gert.