148. löggjafarþing — 62. fundur,  28. maí 2018.

stjórnsýsla ferðamála.

[15:46]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég ætla að byrja á því að segja að ég tek ekki undir með hv. þingmanni að það sem komi fram í þessari skýrslu Ríkisendurskoðunar sé áfellisdómur yfir skipulagi ferðaþjónustu og ferðamála á Íslandi, en þar er fullt af ábendingum. Fyrir þinginu liggur frumvarp um Ferðamálastofu. Það er liður í því að laga skipulagið. Þar erum við að skýra betur stjórnsýsluhlutverk stofnunarinnar. Við erum að setja þar inn rannsóknareiningu, að það sé sú undirstofnun sem ber ábyrgð á því og hefur yfirsýn yfir það hvað þurfi að rannsaka og greina sérstaklega. Við vinnum það síðan í samvinnu við þá sem best gera það.

Varðandi Stjórnstöðina var það fyrirséð allan tímann að það er umdeilt hvernig hún var sett á stofn. Hluti af skýringunni á því að hún var sett á stofn með þeim hætti sem gert var er að málin eru svo víða að mönnum fannst skorta almennilegt samtal þarna á milli.

Reynslan af Stjórnstöð ferðamála er mjög góð. Ég hefði ekki viljað að Stjórnstöð ferðamála hefði ekki orðið til. Farið var af stað með fjöldann allan af verkefnum vegna þess að Stjórnstöð ferðamála var til. Ég bendi líka á að Stjórnstöð ferðamála er tímabundin. Hún á að líða undir lok árið 2020. Ég hef alltaf sagt að ég voni að hún geri það. Þegar það verður, og það er hluti af frumvarpi um Ferðamálastofu, kemur til breytt ferðamálaráð. Það breytist þá seinna eftir að lögin taka gildi þannig að það taki í raun við af Stjórnstöð ferðamála. Samhliða því tel ég mikilvægt að til verði sérstök ráðherranefnd vegna þess að ferðaþjónustan er sú atvinnugrein sem fer um alla kima samfélagsins og það verður aldrei hægt að koma öllum málum fyrir í einu ráðuneyti.

Varðandi það að ég svari bara fyrir mig, að ég sé að skila auðu þegar kemur að ferðamálum og ferðaþjónustu, er ég hjartanlega ósammála. Ég nýti kannski seinna svarið í að telja upp þau fjöldamörgu verkefni sem ég hef tekið fyrir. Ég (Forseti hringir.) er líka að fá í hendur verkefni eftir að ráðherrar sem á undan mér voru sáðu þeim fræjum og settu þau af stað; verkefni sem við erum að vinna að þessa stundina.