148. löggjafarþing — 62. fundur,  28. maí 2018.

stuðningur við borgarlínu.

[15:53]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Borgarlína var mjög umrædd í sveitarstjórnarkosningum eins og hv. þingmaður bendir á. Ef ég má lýsa minni persónulegu skoðun fannst mér frambjóðendur oft ekki vera að tala um sömu hlutina þegar þeir ræddu borgarlínu. En borgarlínuverkefnið hefur verið kynnt fyrir ráðherranefnd ríkisstjórnarinnar þar sem var farið sérstaklega yfir samgönguframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu. Hugmyndin með verkefninu er auðvitað að horfa til þess að íbúum höfuðborgarsvæðisins muni fjölga um 70.000 til ársins 2040. Við vitum að ef uppspretta gremju í borgarsamfélögum er greind er einmitt gjarnan um að ræða umferðartafir. Þá þarf að horfa til þess hvernig við getum gert umferðarkerfið þannig að það sé í senn skilvirkt og þjóni loftslagsmarkmiðum, bæði ríkis og sveitarfélaga, sem eru auðvitað þau sömu.

Hugsunin á bak við borgarlínu eins og verkefnið stendur núna er fyrst og fremst að vera viðbót fyrir strætisvagna og sömuleiðis að þeir verði drifnir með endurnýjanlegum orkugjöfum, þ.e. raforku, ólíkt því sem er í dag þannig að þetta verði umhverfisvænn samgöngumáti.

Á fyrri stigum þessa verkefnis var hins vegar rætt um jafnvel sporvagnasamgöngur, léttlestir, þannig að þetta verkefni hefur tekið talsverðum breytingum í samtali sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.

Hvað vill ríkisstjórnin? spyr hv. þingmaður. Við viljum eiga samtal við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu og höfum þegar hafið það samtal því að fyrir þessar sveitarstjórnarkosningar var unnin greining á því milli samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis, Vegagerðarinnar og Sambands sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu að setja í samhengi hins vegar þetta verkefni — og það er rétt að það mun kosta 70 milljarða, allir áfangar, fyrsti áfangi er þó nær því að vera 35–40 milljarðar — og síðan að fyrir liggur líka að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu vilja ýmsar aðrar samgönguframkvæmdir. Það eru ekki hafnar viðræður um kostnaðarþátttöku ríkis í þessum verkefnum en það er mjög mikilvægt (Forseti hringir.) til þess að allir aðilar geti gert áætlanir að við höfum þessa heildarmynd og tímaáætlanir. Þær viðræður munu væntanlega halda áfram þegar nýir meiri hlutar hafa verið myndaðir hjá sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu.