148. löggjafarþing — 62. fundur,  28. maí 2018.

aðgerðir vegna stöðu sauðfjárbænda.

[16:01]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Bergþóri Ólasyni fyrirspurnina. Mikið er nú yndislegt að heyra hann vitna í landsfundarályktun Sjálfstæðisflokksins. Ég vildi að hann kæmi og smíðaði þær með okkur í framhaldinu sömuleiðis.

Þetta hefur verið rætt töluvert. Ég nefni það hér að ég bauð öllum þingmönnum að koma á kynningu á þessu máli í ráðuneytinu um daginn. Ég held að ástæða sé til að ég endurtaki það boð. Eðli máls samkvæmt, vegna anna í þinginu, áttu menn mjög erfitt með að sækja þá kynningu. Ég tel fulla þörf á henni. Þar er farið yfir bæði sögu málsins og aðdraganda, hvað er verið að gera o.s.frv.

Það er rétt að fyrir liggja og hafa legið frá árinu 2016 hugmyndir í átta liðum, þ.e. tillögur að mótvægisaðgerðum í tengslum við samninga á tollkvótum á innflutningi, sérstaklega kjöti. Þær tillögur eru ærið misjafnar og hefur lítið verið unnið með þær. Þó eru sumar komnar á veg. Sitt sýnist hverjum í þeim efnum.

Hins vegar snýr stóra málið, sem hv. þingmaður nefnir, að eftirliti með hreinleika kjöts. Um það var samið á árunum 2005–2007 að heilbrigðiseftirlit á Íslandi stæði ekki heilbrigðiseftirliti Evrópusambandsins neitt að baki. Vandinn við það með hvaða hætti við ætlum að takast á við þann nýja veruleika sem leiðir af umsaminni innleiðingu matvælalöggjafar Evrópusambandsins hér á landi, vandinn sem mestur er við að eiga er hvernig við ætlum að byggja upp eftirlitið á þeim markaði sem er með kjöt á Íslandi. Það er allt í deiglunni. Yfir þetta er farið í áðurnefndri kynningu. Erfiðast í þeim efnum, að minni hyggju, (Forseti hringir.) verður með hvaða hætti við samræmum annars vegar eftirlit ríkisins á vegum Matvælastofnunar og hins vegar eftirlit sveitarfélaga hjá heilbrigðiseftirliti sveitarfélaga.