148. löggjafarþing — 62. fundur,  28. maí 2018.

aðgerðir vegna stöðu sauðfjárbænda.

[16:04]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Um innfluttu vörurnar gilda sömu lögmál og um íslenska framleiðslu, þ.e. gagnvart hreinleika. Samningurinn um upptöku matvælalöggjafarinnar leiddi af sér að með sama hætti og við getum flutt út sjávarafurðir beint á markað erlendis hjá Evrópusambandinu, vegna þess að heilbrigðiseftirlitið hér tryggir gæði þeirrar vöru, skuldbindum við okkur til að treysta heilbrigðiseftirliti Evrópusambandsríkjanna gagnvart þeirra framleiðslu. Við lítum ekki á vörur Evrópusambandsins sem vörur frá þriðja ríki og þeir ekki heldur á vörur frá okkur sem við flytjum á þeirra markað sem vörur frá þriðja ríki. Þetta er einfaldlega þannig að heilbrigðiseftirlitið á báðum þessum svæðum á að vera jafngilt. Vandi okkar liggur í því að gera ekki aðrar (Forseti hringir.) kröfur gagnvart innlendri framleiðslu en við gerum gagnvart þeirri erlendu sem flutt er hingað inn. (Forseti hringir.) Til þess að geta staðið við þá fullyrðingu þurfum við að byggja upp eftirlitið með þessu með öðrum hætti en við höfum hingað til gert.