148. löggjafarþing — 62. fundur,  28. maí 2018.

hreyfing og svefn grunnskólabarna.

445. mál
[16:16]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir að taka þetta hér á dagskrá og fagna orðum ráðherra í þá veru að ætla að taka á þessum málum og stíga þar inn. Þetta er gríðarlega mikilvægt mál sem við þekkjum öll. Það þarf ekkert að fara yfir það að hreyfing og svefn eru grunnurinn að því að við verðum hraust og heilbrigð. Þannig vil ég hafa ungmennin okkar.

Það er vitað að grunnskólarnir hafa ákveðna námskrá til að fara eftir og ákvörðun um fjölda tíma er lágmark. En við vitum líka, og þar þekki ég til, að til eru skólar sem hafa ákveðið að auka íþróttakennslu og það hefur verið gert í nokkuð mörg ár.

Mig langar því til að velta því upp hvort gerð hafi verið könnun á því hvort tengsl eru á milli námsárangurs og hreyfingar í þessum skólum, þar sem aukin áhersla er á hreyfingu og íþróttir. Ég spyr hvort það sé eitthvað sem megi vinna með áfram og hvernig við getum fundið út tengslin þarna, hvort þetta sé eitthvað sem horfa megi til til að byggja upp annars staðar.