148. löggjafarþing — 63. fundur,  29. maí 2018.

Störf þingsins.

[13:38]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Í grunninn snúast kosningar, eða ættu a.m.k. að gera það, um framtíðina. Að loknum sveitarstjórnarkosningunum er vert að velta fyrir sér framhaldinu og óska nýkjörnu sveitarstjórnarfólki til hamingju með árangurinn. Misjafnlega miklu var lofað, en ég vil trúa því að flestir sem bjóða sig fram til starfa í pólitík hafi góðan vilja að leiðarljósi og hag síns samfélags. Við eigum að fagna því hversu margir eru tilbúnir til að gefa kost á sér til starfans og ekki síst í litlum samfélögum þar sem nálægðin er mjög mikil.

Nú er unnið að því að mynda meiri hluta og sums staðar er sú vinna vel á veg komin. Þá sjáum við hvort þeir sem við stjórnvölinn verða í sveitarfélögunum standa við stóru orðin og forgangsraða fjármunum í þau verkefni sem hæst bar á hverjum stað. Ég hvet það fólk sem stendur í samningaviðræðum um að stýra sínu sveitarfélagi til að hafa í huga að forgangsraða í þágu jafnræðis og jafnréttis. Það er mikilvægt að styðja vel við barnafjölskyldur, t.d. með gjaldfrjálsum grunnskóla, sem og að muna að hafa barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna að leiðarljósi við allar ákvarðanir er varða börn. Ekki er síður mikilvægt að hlúa vel að eldra fólkinu, sem staðið hefur vaktina, og sjá til þess að það eigi áhyggjulaust ævikvöld.

Ríkisstjórnin hefur lagt fram fimm ára ríkisfjármálaáætlun þar sem gríðarlega mikil áhersla er lögð á uppbyggingu innviða. Á tímabilinu á að fjárfesta fyrir 338 milljarða. Mikil áhersla er lögð á heilbrigðismál, m.a. með því að styrkja stöðu heilsugæslunnar og heilbrigðisstofnana sem og uppbyggingu hjúkrunarrýma í hinum dreifðu byggðum. Forgangsröðunin er skýr, að venjulegt fólk fái aðgang að betri heilbrigðisþjónustu og betra velferðarkerfi. Einnig er mikil áhersla lögð á skólamál og samgöngumál og margt fleira. Sveitarfélög fjárfesta líka í gatnagerð, grunnskólum, íþróttamannvirkjum og mörgu öðru og allt spilar það saman.

Til að samfélaginu gangi vel þarf sígandi lukku. Mikilvægasta hlutverk stjórnvalda (Forseti hringir.) á báðum stigum er að tryggja og hámarka velferð landsmanna, bæði til skamms og langs tíma.