148. löggjafarþing — 63. fundur,  29. maí 2018.

Störf þingsins.

[13:43]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Herra forseti. Okkur hefur verið umhugað hér í þessum sal eins og held ég víðast annars staðar um að vinna gegn hvers konar svikastarfsemi, skattundanskotum og svo framvegis. Í efnahags- og viðskiptanefnd vorum við með í morgun til umfjöllunar tvö slík mál. Annars vegar frumvarp um aðgerðir gegn skattundaskotum og skattsvikum; þetta er hert skatteftirlit og skattrannsóknir. Hins vegar frumvarp frá hæstv. dómsmálaráðherra um peningaþvætti.

Frumvörpin eru auðvitað ekki gallalaus fremur en annað. Við tökum þau til meðferðar og gerum vonandi þær umbætur sem nauðsynlegar eru í nefndinni. En mikið væri nú gaman ef við hefðum svipaðan áhuga á því að velta fyrir okkur hvernig við verjum þeim fjármunum sem koma í sameiginlegan kassa, ekki síður en að vinna gegn skattundanskotunum og skattsvikum, þ.e. hvernig við förum með opinbera fjármuni.

Það er nefnilega þannig að þegar við tökum ákvörðun um að fjármagna t.d. heilbrigðiskerfið, auka fjárframlög til þess, veltum við því sjaldnast fyrir okkur hvað við fáum fyrir hina auknu fjármuni. Ástæðan er sú að við höfum því miður fallið í þá gryfju að taka ákvörðun um fjármögnun, ekki bara heilbrigðiskerfisins, það má líka halda því fram að það eigi við um menntakerfið, út frá þörfum kerfisins en ekki þörfum þeirra sem þurfa á þjónustunni að halda. Fjármögnun heilbrigðiskerfisins er t.d. ekki á forsendum hinna sjúkratryggðu, okkar allra, (Forseti hringir.) heldur út frá kerfinu sjálfu. Við þurfum að snúa þessu við og byrja að hugsa um þarfir hinna sjúkratryggðu (Forseti hringir.) og láta þarfir kerfisins mæta afgangi.