148. löggjafarþing — 63. fundur,  29. maí 2018.

Störf þingsins.

[13:52]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla hér í kjölfar sveitarstjórnarkosninga að gera að umtalsefni almenningssamgöngur í ljósi þess að ég held að hver einasti flokkur sem boðið hefur fram hafi dásamað þær og mikilvægi þeirra með einum eða öðrum hætti.

Með leyfi forseta, langar mig að lesa hér upp úr skýrslu um tilraunaverkefni um eflingu almenningssamgangna, en þar segir:

„… á samningstímanum hafa framlög sveitarfélaganna haldið raungildi sínu og aukist miðað við þá verðlagsvísitölu sem tilgreind er í samningnum. Framlög ríkisins, eins og þau hafa verið ákvörðuð í fjárlögum hvers árs, hafa hins vegar ekki fylgt þeirri verðtryggingu sem kveðið er á um í samningnum, og þó svo að sú skerðing sem var á árunum 2013–2015 hafi að nokkru gengið til baka á árinu 2016 þá vantar enn þá u.þ.b. 100 milljónir kr. til að upphaflegt ársframlag haldi verðgildi sínu.“

Hvaða árangri hefur þetta tilraunaverkefni náð? Mikið hefur verið rætt um þessi 4% og við höfum ekki náð að hífa þá tölu upp, það er alveg rétt. En ýmsir aðrir mælikvarðar eru mjög jákvæðir.

Fjöldi farþega Strætó á hvern íbúa á höfuðborgarsvæðinu jókst um 14% frá 2011–2015 en bílaumferð á hvern íbúa um 7%. Þegar tekin eru stór gatnamót á höfuðborgarsvæðinu, eins og Kringlumýrarbraut og Fossvogur og Elliðaárdalur, jókst umferðin á þeim gatnamótum annars vegar um 3% og hins vegar um 8%. Farþegum í strætisvögnum fjölgaði hins vegar á þessum gatnamótum um 13% og um 12%. Losun gróðurhúsalofttegunda frá umferð jókst um 6% á hvern íbúa á tímabilinu 2011–2015, en losun gróðurhúsalofttegunda á hvern ekinn kílómetra í vagnaflota Strætó dróst saman um 7% á þeim sama tíma.

Við hljótum öll að vera sammála um mikilvægi almenningssamgangna. Höfuðborgarsvæðið hefur á síðustu árum verið skilið eftir þegar kemur að úrbótum í samgöngumálum. Það verður að gera á því bragarbót. En við megum ekki falla endalaust í þá gryfju að vera hér að tala um svart og hvítt. Almenningssamgöngur, borgarlínu, mislæg gatnamót og eitthvað annað. Við þurfum bæði. Það þarf einfaldlega að gera miklar (Forseti hringir.) umbætur í samgöngumálum hér á höfuðborgarsvæðinu. Að sjálfsögðu er nauðsynlegt að efling almenningssamgangna sé hluti af því með borgarlínu (Forseti hringir.) eins og hún er skilgreind af sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)