148. löggjafarþing — 63. fundur,  29. maí 2018.

Jöfnuður og traust.

[14:14]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka upp þetta mikilvæga mál þó að mér finnist hún allsvartsýn í heimsmynd sinni sem birtist í ræðu hennar því að margt af því sem hv. þingmaður sagði að þyrfti að gera hefur þegar verið boðað í fjármálaáætlun nýrrar ríkisstjórnar. Mun ég nú fara yfir það.

Mér finnst hins vegar áhugaverð grundvallarspurning hv. þingmanns um traust og jöfnuð og hvort við getum tengt jöfnuð við velferðarkerfið. Það er eitt af því sem lengi hefur verið rætt meðal fræðimanna, þ.e. hvort velferðarkerfi og jöfnuður séu undirstaða trausts, eins og hv. þingmaður benti á í ræðu sinni, eða hvort traustið sé í raun og veru undirstaða velferðarkerfisins og jöfnuðar. Um það hafa fræðimenn deilt. Sumir hafa haldið því fram að velferðarkerfið á Norðurlöndunum til að mynda, sem hv. þingmanni varð tíðrætt um, byggi á því að þetta séu einsleit samfélög þar sem ríkir mikið traust. Þar af leiðindi séu karlar og konur reiðubúin að fjárfesta í þeim innviðum sem eru nauðsynlegir fyrir velferðarsamfélagið. Aðrir fræðimenn hafa bent á að það að skapa velferðarsamfélag sé leiðin til þess að byggja upp traust í samfélaginu. Það finnst mér áhugaverð umræða því að það er nokkuð sem við ættum að velta fyrir okkur þegar við ræðum traust á Íslandi og berum saman við önnur Norðurlönd og berum líka saman jöfnuð og velferðarkerfi Íslands og annarra Norðurlanda.

Hv. þingmaður talaði um að ójöfnuður færi vaxandi á Íslandi. Ég var að skoða nýjustu tölur Gini-stuðulsins, sem mælir tekjujöfnuð á Íslandi. Þróunin samkvæmt honum hefur í raun og veru verið sú að það eru engar markverðar breytingar þegar kemur að tekjuójöfnuði á Íslandi frá árinu 2011, þ.e. breytingarnar eru innan öryggismarka. Ég er hins vegar sammála hv. þingmanni í því, eða ég held að minnsta kosti að hún hafi sagt það, að það er mjög þröng leið til að horfa á jöfnuð eingöngu út frá tekjudreifingu. Það hef ég rætt oftar en einu sinni í þessum stól að hinn raunverulegi ójöfnuður birtist í eignaójöfnuði. Gini-stuðullinn mælir t.d. ekki söluhagnað hlutabréfa. Ef við gefum okkur að söluhagnaður hlutabréfa hafi til að mynda farið vaxandi frá árinu 2011 er mjög líklegt að ójöfnuðurinn hafi aukist þó að tekjuójöfnuðurinn hafi ekki aukist.

Það er mikilvægt að við byggjum svona umræðu á staðreyndum og tökum þær fram og vegum og metum. Hv. þingmaður nefndi að fjármagnstekjuskattur hefði verið hækkaður. Hann var einmitt hækkaður um 10%, um tvö prósentustig og um leið var frítekjumark hækkað sem hlífði almennum sparnaði, vegna þess að þar með viljum við skattleggja meira söluhagnað á hlutabréfum; fjármagnstekjur þeirra sem eiga mest. Það hefur verið greint og þessi skattahækkun leggst fyrst og fremst á þá sem mest eiga. Þarna er mjög raunhæf aðgerð, áþreifanleg aðgerð, til að auka jöfnuð í samfélaginu.

Hv. þingmaður talar um greiðsluþátttöku í heilbrigðiskerfinu. Ég bið hv. þingmann að kynna sér efni fjármálaáætlunar þar sem við leggjum til að 8,5 milljörðum verði varið á næstu fimm árum til þess að draga úr greiðsluþátttöku sjúklinga í íslenska heilbrigðiskerfinu. Af hverju gerum við það? Vegna þess að hún hefur verið of há. Hún er hærri en annars staðar á Norðurlöndum. Með þessum áætlunum erum við hins vegar sambærileg við önnur Norðurlönd þegar kemur að greiðsluþátttöku sjúklinga. Fyrsta skrefið var stigið strax í síðustu fjárlögum þegar farið var í að leiðrétta gjaldskrá öryrkja og aldraðra við tannlækningar sem hafði ekki verið breytt árum saman. Það var löngu tímabær breyting. Strax voru settir 0,5 milljarðar í þá aðgerð og verður 1 milljarður á ársgrunni frá og með næstu áramótum.

Þannig að ég bendi hv. þingmanni á að nú þegar hefur verið gripið til ýmissa aðgerða einmitt til þess að efla velferðarkerfið, auka jöfnuð. Það sama má í raun segja þegar við erum að fjárfesta í menntun. Eins og hv. þingmaður þekkir vel er menntakerfið líklega mikilvægasta tækið, fyrir utan skattkerfið, til að efla jöfnuð í samfélaginu. Þar erum við loksins að snúa vörn í sókn og efla menntun bæði í framhaldsskólum og háskólum með auknu fjármagni af því að við vitum að þetta er ekki aðeins spurning um tækifæri fyrir framtíðina, fyrir öflugra atvinnulíf og fjölbreyttara, heldur er menntakerfið líka jöfnunartæki.

Hv. þingmaður gerir lítið úr því í ræðu sinni að fara eigi í samskipti við til að mynda fulltrúa örorkulífeyrisþega um kerfisbreytingar á almannatryggingakerfinu þannig að það náist að skapa sátt um slíkar breytingar til að bæta kjör öryrkja. Ég er alveg ósammála hv. þingmanni um það. Ég vil sjá hér vandaðri vinnubrögð, ég vil að við náum sátt um þær breytingar sem gerðar eru. Það náðist ekki 2016 þegar farið var í breytingar á almannatryggingakerfinu. Nú vinnum við að því að ná slíkri sátt með fulltrúum örorkulífeyrisþega og ég vona að sú vinna muni skila okkur góðum tillögum sem tryggja (Forseti hringir.) mannsæmandi kjör fyrir þennan hóp. Það sama vil ég segja um breytingar á tekjuskattskerfinu sem við höfum áætlað töluverða fjármuni í í þessari fjármálaáætlun, að þær þjóni þeim yfirlýsta tilgangi ríkisstjórnarinnar að gagnast hinum tekjulægri. En það verður heldur ekki gert nema að vanda til verka.