148. löggjafarþing — 63. fundur,  29. maí 2018.

Jöfnuður og traust.

[14:26]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka málshefjanda þessa þörfu umræðu. Hér virðist sama þróun vera að eiga sér stað og annars staðar í heiminum að ójöfnuður er að aukast. Þó má benda á að Ísland kemur betur út í alþjóðlegum samanburði þegar kemur að tekjujöfnuði, en aftur á móti ekki eins vel þegar kemur að eignajöfnuði.

Eins og fram hefur komið hefur ríkisstjórnin gripið til ýmissa aðgerða til að auka jöfnuð, minnka skattbyrði og greiðsluþátttöku hinna tekjulægstu. Góð teikn eru á lofti og má lesa úr fjármálaáætlun að svigrúm til breytinga á tekjuskattskerfinu er um 14 milljarðar. Nú þegar hefur fjármagnstekjuskattur verið hækkaður um 10% sem hefur áhrif til meiri eignajöfnuðar. Auk þess segir m.a. í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að hún ætli að draga úr greiðsluþátttöku sjúklinga í heilbrigðiskerfinu, gera það gagnsærra og skilvirkara. Í fjármálaáætlun má sjá að svigrúm til þess er um 8 milljarðar kr.

Hæstv. forseti. Ég vil gera jafnrétti kynjanna að umtalsefni hér. Það er athyglisvert, sem fram kemur í skýrslu norrænu ráðherranefndarinnar, en þar sýna ákveðnar niðurstöður að ójöfnuður er til staðar milli karla og kvenna í öllum tekjuhópum. Þegar litið er til atvinnutekna er munurinn mestur hjá lægstu og hæstu tekjuhópunum. En sé litið til ráðstöfunartekna er munurinn mestur í efstu tekjuhópunum. Bent er á að minni ójöfnuður ráðstöfunartekna er milli kvenna en milli karla.

Annað áhugavert er að konum í efstu tekjulögum hefur ekki fjölgað á Norðurlöndum í alþjóðlegum samanburði. Ýmsir færa fyrir því rök að hið svokallaða norræna módel geti haft neikvæð áhrif á tækifæri kvenna til að komast í efstu tekjulögin.

Hæstv. forseti. Með sterkari stöðu ríkissjóðs erum við í fullum færum að halda vel utan um fólkið okkar, bæta stöðu þeirra lægst settu, auka jöfnuð allra hópa. Því vil ég hvetja hæstv. forsætisráðherra til dáða og hvetja hana til að fylgja fast eftir áætlunum um aukinn jöfnuð, því að aukinn jöfnuður leiðir til enn betra samfélags.