148. löggjafarþing — 63. fundur,  29. maí 2018.

Afbrigði um dagskrármál.

[15:09]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Í fyrsta lagi er algerlega út í hött að ætla að taka þetta mál á spretthlaupi. Þetta er gríðarlega mikilvægt mál. Við erum búin að vera að kalla eftir að það verði lagt fram í sinni endanlegu mynd fyrir okkur hér mjög lengi, í allan vetur. Það liggur fyrir.

Svo er alveg rétt hjá hv. þm. Birgi Ármannssyni að málið hefur legið fyrir mjög lengi. En það hefur líka legið fyrir mjög lengi að best væri og eðlilegast að málið fengi eðlilega þinglega meðferð. Það ætti heldur ekki að koma neinum á óvart. Það hefði að sjálfsögðu átt að ganga þannig frá að svo yrði. Það ætti heldur ekki að koma neinum á óvart. Málið sem hefur legið fyrir mjög lengi er ekkert endilega það sama og er í þessum 147 bls. bæklingi sem við höfum fengið í hendur í dag. Við höfum engar forsendur til að treysta því sem kemur frá flutningsmönnum þessarar tillögu, að þar sé enginn munur á því sem hefur verið í samráðsgáttinni og því sem nú er komið fyrir okkar augu. Við höfum engar forsendur til að treysta því enda hefur samráð í þessu máli verið í lágmarki.