148. löggjafarþing — 63. fundur,  29. maí 2018.

Afbrigði um dagskrármál.

[15:13]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði áðan hefur frumvarpið vissulega legið fyrir í þó nokkuð langan tíma. En það eru ýmis tæknileg smáatriði sem skipta máli og þingið þarf að kynnast betur og fjalla um. Þó að við höfum getað litið yfir frumvarpið og drögin að því í almennu máli eru það tæknilegu smáatriðin sem skipta öllu máli og er á verksviði þingsins að skilja og útkljá. Annað sem við getum ekki gert er að setja þetta færiband í botn og stimpla þetta út án ítarlegrar yfirferðar þingsins. Við getum ekki heldur, eins og hefur verið sagt hér, afgreitt málið á þennan undarlega hátt. Jú, við getum kannski prófað það en það sleppur aldrei við að þingið afgreiði málið faglega og vel, allt annað hefur yfirleitt komið í hausinn á okkur seinna með ýmsum lagfæringum og tilkostnaði. Það voru um 5 milljarðar í kostnað sem við vorum að vinda ofan af afturvirkt í fyrra út af (Forseti hringir.) mistökum í lagasetningu. Við viljum ekki lenda í svoleiðis. Það eru rosalegar upphæðir í þessu frumvarpi. Við verðum að passa okkur vel.