148. löggjafarþing — 63. fundur,  29. maí 2018.

Afbrigði um dagskrármál.

[15:15]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Þetta er býsna stórt mál og viðurhlutamikið. Það er ekki hægt annað en að taka undir að vinnubrögðin í þessu máli eru í hæsta máta sérkennileg. Það hefur verið vísað til þess hér, nú síðast af hv. þm. Birgi Ármannssyni og áður af dómsmálaráðherra, að þingmönnum hefði verið í lófa lagið að kynna sér málið á samráðsgátt stjórnvalda. Samráðsgáttin er samkvæmt hlutverki sínu ætluð almenningi og hagsmunaaðilum til að eiga samskipti við stjórnvöld um það sem þau eru með á prjónunum. Það er nokkur nýlunda ef það er orðinn sérstakur farvegur fyrir þingmál að vísa þinginu á samráðsgátt Stjórnarráðsins um það hvað í vændum er. Ég átta mig ekki alveg á því en þykir þetta harla sérkennilegt og vona svo sannarlega að þeir sem tala fyrir bættum vinnubrögðum og meiri virðingu Alþingis ætli ekki að fara að taka upp þann sið að vísa mönnum á vef Stjórnarráðsins um það hvað Alþingi á að sýsla.