148. löggjafarþing — 63. fundur,  29. maí 2018.

Afbrigði um dagskrármál.

[15:23]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég vil eiginlega ákalla hæstv. forsætisráðherra, sem er verkstjóri í þessari ríkisstjórn, og biðja hana um að vera með þingmönnum í liði við vandaða lagasetningu. Við erum að reyna að vanda okkur hérna. Þetta eru lög sem hafa áhrif á allt samfélagið, hæstv. forsætisráðherra, hafa áhrif á stjórnvöld, fyrirtæki, stór og smá, atvinnustarfsemi, heilbrigðiskerfi, menntakerfi, allt kerfið okkar. Við erum í dag líka að fjalla um þingsályktunartillögu um Evrópureglugerðina, um persónuverndarreglugerðina. Það er vel við hæfi að fjalla um hana. En það er annað að eiga að fjalla um heildarlög, heildarbreytingu, sem er að koma úr dómsmálaráðuneytinu, sem við vitum ekkert hvað hefur verið að gera við þetta. Þetta eru hreinar viðbætur. Þetta eru alls konar breytingar. Það eru svo rosalega miklir hagsmunir sem eru þarna undir að ég grátbið (Forseti hringir.) hæstv. forsætisráðherra um að vera með þingmönnum í liði. (Forseti hringir.) Við erum löggjafinn. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)