148. löggjafarþing — 63. fundur,  29. maí 2018.

Afbrigði um dagskrármál.

[15:31]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég verð að taka undir það að mér þykir mjög miður hversu seint þetta mál er komið hingað inn. Ég vildi óska þess að það hefði komið fyrr inn og tek heils hugar undir að það hefði verið betra. Fyrir því eru ákveðnar skýringar sem farið hefur verið yfir hér að einhverju leyti. Það snýr að einhverju leyti að tilraunum til að koma þessum málum inn í tveggja stoða lausnir og samskiptum við Evrópusambandið. Það breytir engu um að það er ekki gott hversu seint þetta mál kemur hingað inn. Ég vil í framhaldi af þessu að við hugleiðum það að þingið ætti kannski að skoða aðeins hvernig samskipti okkar eru við Evrópusambandið innan EES og við stjórnvöld á hverjum tíma. Núverandi ríkisstjórn á að taka það til sín hvernig hún vinnur með þau mál. Ég vona að við getum tekið höndum saman um að vinna þetta mál eins vel og við getum því að þetta er risastórt mál og ekki veitir okkur af tímanum til þess að gera þetta vel.