148. löggjafarþing — 63. fundur,  29. maí 2018.

persónuvernd og vinnsla persónuupplýsinga.

622. mál
[16:07]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tek heils hugar undir vangaveltur hv. þingmanns um þýðingu á textum þeirra evrópsku gerða sem við erum að innleiða, í þessu tilviki varðandi það hugtak sem þýtt hefur verið á íslensku sem heimspekileg sannfæring, ef ég man rétt. Ég teldi fara betur á því að þarna væri notað hugtakið lífsskoðun því að ég held að það sé okkur Íslendingum tamara og nái yfir það sem þessu ákvæði er raunverulega ætlað að grípa.

En Þýðingarmiðstöð utanríkisráðuneytisins hefur þýtt þetta hugtak svona, mögulega með einhver fordæmi í huga eða þess háttar. Við þýðingar af þessum gerðum, það er alveg sama hvort verið er að þýða úr ensku á frönsku eða úr frönsku á þýsku, er mönnum nokkur vandi á höndum. Þetta er ekki séríslenskt vandamál en það er mjög mikilvægt að menn séu að tala um sama hlutinn með öllum þessum hugtökum.

Í þessu tilviki hafa sérfræðingar á þessu sviði, sem séð hafa um þýðingar fyrir Ísland í þessu máli, ekki treyst sér til annars en að þýða hugtakið eftir orðanna hljóðan. En hv. nefnd ætti að ræða þetta og kannski fá einhverja skýringu á þessu. Sérstaklega var leitað eftir afstöðu utanríkisráðuneytisins til þeirra hugmynda sem við höfðum í dómsmálaráðuneytinu um að breyta þessu í lífsskoðunarfélag eða lífsskoðun. Ekki var fallist á að það væri ráðlegt.