148. löggjafarþing — 63. fundur,  29. maí 2018.

persónuvernd og vinnsla persónuupplýsinga.

622. mál
[16:09]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Það er orðið ljóst að vandfundin er, eins og hæstv. ráðherra komst að orði sjálf, löggjöf sem hefur víðtækari áhrif en einmitt sú sem hér ræðir. Hún snertir nær alla þætti þjóðlífsins og þar með talið atvinnulífsins. Það sem ég hef mestar áhyggjur af í þessu samhengi er það sem ég heyri um að lítið hafi verið brugðist við kvörtunum og athugasemdum atvinnulífsins. Það er alveg ljóst að hér er töluvert um tilvik þar sem ráðuneytið virðist ganga mun lengra en reglugerðin segir til um, jafnvel fullyrt að í samanburði við Norðurlöndin virðumst við ítrekað velja ströngustu valmöguleikana ef svo mætti að orði komast í þeim tilvikum þar sem við höfum einmitt eitthvað um útfærsluna að segja.

Það er einkum tvennt sem ég staldra við í fyrstu lotu. Annars vegar virðist vera gerður töluverður greinarmunur á opinberum aðilum og einkaaðilum, t.d. þegar kemur að því hvort vinnuskjöl skuli falla undir ákvæði reglugerðarinnar eða ekki. Þetta er auðvitað gríðarlega mikilvægt atriði því að opinberir aðilar eru samkvæmt frumvarpsdrögunum undanþegnir því að vinnuskjöl falli þar undir. Þetta er auðvitað gríðarlega umfangsmikið mál og getur verið, bæði hjá hinu opinbera og hjá einkaaðilum, mjög flókið að halda utan um, en einhverra hluta vegna skulu einkaaðilar, en í dag nær í raun engin löggjöf til þessara vinnuskjala, þ.e. rétt almennings til aðgangs að þeim, falla að fullu undir reglugerðina samkvæmt frumvarpsdrögunum með tilheyrandi kostnaði fyrir atvinnulífið.

(Forseti hringir.) Nú er ráðherra horfinn. Í öðru lagi snúa áhyggjur mínar að sektarákvæðum sem virðist vera að hækka umtalsvert (Forseti hringir.) frá því sem tíðkast hefur hingað til og í raun og veru verið að fela Persónuvernd ansi víðtækar heimildir þar við fyrstu sýn.