148. löggjafarþing — 63. fundur,  29. maí 2018.

persónuvernd og vinnsla persónuupplýsinga.

622. mál
[16:12]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda fyrir tækifæri að fá aðeins að ræða það samráð sem haft var við m.a. atvinnulífið og í rauninni öll sveitarfélögin og allar helstu stofnanir sem hafa haft áhuga á þessu og höndla með miklar persónuupplýsingar. Það var haldinn kynningarfundur með þessum aðilum áður en frumvarpið var lagt fram í drögum inn á samráðsgáttina. Fengum við mjög gagnlegar ábendingar frá öllum þessum aðilum.

Í framhaldinu og til viðbótar þegar málið hafði verið lagt inn á samráðsgáttina þá bárust okkur enn frekari athugasemdir og ábendingar. Við tókum tillit til mjög margra þeirra, sérstaklega athugasemda sem bárust frá fyrrum vinnustað hv. þingmanns, Samtökum atvinnulífsins, en þau samtök höfðu sent sameiginlega umsögn ásamt fleiri samtökum í atvinnulífinu, og athugasemdir. Það er því búið að taka tillit til mjög margra þátta. Þetta er allt saman skýrt og farið ítarlega yfir í 9. kafla greinargerðar með frumvarpinu sem heitir Samráð. Það er sérstaklega vikið að þessum athugasemdum frá atvinnulífinu á bls. 49.

Hv. þingmaður spyr sérstaklega um vinnuskjöl og telur ólíkar reglur gilda um einkaaðila og opinbera aðila að þessu leyti. Því er til að svara að hin evrópska reglugerð fjallar ekkert um vinnuskjöl einkaaðila. Þegar af þeirri ástæðu er okkur mjög erfitt um vik að setja reglur í þessu máli um vinnuskjöl einkaaðila. Þarna sést nú kannski hvernig reglugerðin sníður okkur stakk.