148. löggjafarþing — 63. fundur,  29. maí 2018.

persónuvernd og vinnsla persónuupplýsinga.

622. mál
[16:25]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er rétt að ég hafði á þingmálaskrá kynnt áform mín um að leggja frumvarpið fram í janúar. Þá gerði ég að sjálfsögðu ráð fyrir að hin sameiginlega EES-nefnd væri búin að taka gerðina upp í EES-samninginn. Þegar ég nefni það að ég telji þetta kannski of snemmt fram komið þá er það með þeim formerkjum að ég tel eðlilegra að gerðir Evrópusambandsins, sem við þurfum að innleiða hér, séu fyrst teknar upp í EES-samninginn áður en mál um þær séu lögð fram hér á þingi. Það er nú bara það sem ég á við.

Í þessu tilviki er það þannig að dráttur hefur orðið af hálfu Evrópusambandsins, af hálfu framkvæmdastjórnarinnar, á því að afgreiða málið þannig frá sér að það sé tækt til afgreiðslu hjá sameiginlegu EES-nefndinni. Fyrir mánuði bjóst ég við að málið yrði á dagskrá nefndarinnar á fundi í júní, þar áður í apríl, en þetta hefur dregist. Nú liggur fyrir að málið verði tekið fyrir á fundi sameiginlegu EES-nefndarinnar í júlí, er komið á dagskrá þar. Það er vissulega óhefðbundið, svo að ekki sé meira sagt, að hér sé komið fram frumvarp sem kveður á um innleiðingu á gerð Evrópusambandsins áður en gerðin er tekin upp í EES-samninginn. Það er nú bara það sem ég á við þegar ég segi þetta sé kannski of snemma fram komið. En það helgast allt af eðli málsins.

Spurt er um það að hvaða leyti frumvarpið hafi tekið breytingum frá 25. mars. Það tók í sjálfu sér ekki miklum efnislegum breytingum frá því það var kynnt 15. mars. Breytingarnar höfðu átt sér stað í samráðsferlinu löngu fyrr. En aðallega var það þó það að í frumvarpið, sem þingmenn fengu 15. mars, eða gátu kynnt sér það, vantaði allar athugasemdir, alla greinargerðina, sem skiptir mjög miklu máli til að geta áttað sig á skýringum og tilgangi frumvarpsins og túlka það í samhengi við texta reglugerðarinnar. Það lá ekki fyrir 15. mars, (Forseti hringir.) en það liggur að sjálfsögðu fyrir, eins og menn þekkja, í þessu frumvarpi.