148. löggjafarþing — 63. fundur,  29. maí 2018.

persónuvernd og vinnsla persónuupplýsinga.

622. mál
[16:35]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er rétt að stýrihópur var settur á laggirnar í nóvember. Löngu fyrir þann tíma var heilmikil vinna í gangi í ráðuneytinu, bæði í dómsmálaráðuneytinu og utanríkisráðuneytinu, til undirbúnings á upptöku og innleiðingu á þessari reglugerð. Það var samið við frumvarpshöfund á vordögum eða snemmsumars um að taka að sér þetta verkefni, að semja ný lög að þessu leyti, þótt frumvarpshöfundur hafi ekki getað komist í það fyrr en á haustdögum. Allar fullyrðingar um annað og öll viðleitni til að sá tortryggni um vinnubrögð og undirbúning á þessu mikla máli, þessu flókna og mikla máli og afbrigðilega máli, finnst mér ósanngjörn og í rauninni til þess fallin vegin að draga úr vægi þeirrar málefnalegu umræðu sem þarf að eiga sér stað um efni þessarar reglugerðar, efni frumvarpsins sjálfs og mögulega hvert menn vilja stefna í Evrópusamstarfinu til framtíðar þegar þeir standa frammi fyrir þeim aðstæðum eins og við gerum í dag að þurfa að innleiða reglugerð án þess að hún hafi verið tekin upp í EES-samninginn með fundi og ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar. Þetta vildi ég sagt hafa.

Að sjálfsögðu þekki ég efni þessarar reglugerðar. Þetta eru enn ein gífuryrðin um efni reglugerðarinnar og frumvarpsins og slík viðleitni til að gera allt saman tortryggilegt finnst mér ekki málinu til framdráttar. Menn geta auðvitað lesið um það. Það kemur skýrt fram í greinargerðinni hvaða ákvæði það eru í lögunum sjálfum þar sem svigrúm er veitt til útfærslu. Það leiðir af hlutarins eðli að frumvarpið sjálft eru þau ákvæði þar sem reglugerðin heimilar svigrúm. (Forseti hringir.) Þess vegna er frumvarpið lagt fram.