148. löggjafarþing — 63. fundur,  29. maí 2018.

persónuvernd og vinnsla persónuupplýsinga.

622. mál
[16:52]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Forseti. Þetta er bara nákvæmlega svona, það er réttaróvissa. Ef við höfnum þessu og verðum í einskismannslandi erum við með kerfi sem er hrunið; ég veit ekki hvort það er rétta orðið en það er alla vega ansi laskað.

Hv. þingmaður talaði um mismunandi túlkanir lögfræðinga. Mig langaði að nefna að ég hef orðið vitni að því að fjölmörg fyrirtæki, smá jafnt sem stór, eru að undirbúa sig, það liggur ljóst fyrir. Mörg þeirra fyrirtækja, sérstaklega þau sem hafa ekki innan sinna raða stórar lögfræðideildir eða sérfræðinga í þessum málefnum, bíða eftir umræðunni sem á sér stað hér — því sem gerist í meðförum nefndarinnar, þeim umsögnum sem kallað verður eftir og koma inn — til að reyna að átta sig á málinu og fara kannski einhverjar styttri leiðir í því að kynna sér til hlítar efni þessa viðamikla frumvarps. Það er svolítið annar handleggur og nokkuð sem ég myndi vilja sjá okkur taka alvarlega í umræðunni.

Að því sögðu þá held ég að það sé alveg ljóst að sú réttaróvissa sem við stöndum frammi fyrir eykst eftir því sem við drögum málið á langinn. Okkur er ekki beinlínis vandi búinn en við þurfum virkilega að vanda okkur. Við erum í þeim aðstæðum að við erum tilneydd, í ljósi aðstæðna, að reima á okkur hlaupaskóna, en við þurfum að passa okkur alveg rosalega vel hvert við hlaupum.