148. löggjafarþing — 63. fundur,  29. maí 2018.

persónuvernd og vinnsla persónuupplýsinga.

622. mál
[17:12]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er einmitt þetta með fjármálaáætlun; ekki er að sjá að tekið hafi verið tillit til ábendinga umræddrar nefndar um að fjórfalda þurfi starfsmannahópinn hjá Persónuvernd. Þvert á móti er einmitt verið að tala um að málafjöldinn hafi aukist töluvert á undanförnum árum hjá Persónuvernd, en þrátt fyrir mikil afköst hafi 575 mál verið opin og óafgreidd í febrúar 2018. Hér er sagt, með leyfi forseta:

„Gert er ráð fyrir að málum muni áfram fjölga á næstu árum.“

Þarna er bara verið að tala um þau mál sem eru dags daglega uppi á borðum hjá Persónuvernd og ekki vikið einu orði að því að fjölga þurfi starfsmönnum umtalsvert út af þessu nýja hlutverki Persónuverndar. Þetta er nefnilega nýtt hlutverk. Það er umtalsvert stærra það hlutverk að hafa eftirlit og leggja á refsingar og taka stjórnvaldsákvarðanir eða kæra til lögreglu eða hvað það er.

Talað er um að bæta eigi við eftirlitssviði hjá stofnuninni sem fái það verkefni að taka út með skipulögðum hætti ýmiss konar starfsemi þar sem unnið sé með persónuupplýsingar. En ekki er að sjá að verið sé að veita umtalsverðar fjárheimildir til þessa málaflokks.