148. löggjafarþing — 63. fundur,  29. maí 2018.

persónuvernd og vinnsla persónuupplýsinga.

622. mál
[17:46]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir þennan áhugaverða vinkil á umræðuna. Vissulega eru þarna ákveðnar vogarskálar, ég get alveg tekið undir það. Í mínum huga snýst þetta fyrst og fremst um að hér kemur löggjafinn með mjög umfangsmikið og íþyngjandi frumvarp, eins og hefur verið nefnt, sérstaklega gagnvart sveitarfélögunum. Þar höfum við svo sannarlega fengið fréttir af því að fjárhagsstaða þeirra er mjög misjöfn. Þau eiga sum hver erfitt með að standa straum af því lögbundna hlutverki sem þau hafa nú þegar. Þess vegna segi ég hér og nú að þessu frumvarpi verður að fylgja fjármagn. Því hefur ekki verið svarað. Hvaðan eiga peningar fyrir verkefnum að koma sem sveitarfélögin eiga að standa straum af? Þetta er ekki fyrsta málefnið þar sem ríkisvaldið kemur einhverju yfir á sveitarfélögin sem ekki fylgja neinir tekjustofnar. Þess vegna er afar brýnt að haft verði víðtækt og eðlilegt samráð. Ég minnist þess ekki að sveitarfélögum hafi verið gefið nokkurt tækifæri til að koma fyrir fjárlaganefnd, svo dæmi sé tekið, til þess að lýsa sjónarmiðum sínum í þessu máli. Að öðru leyti þakka ég fyrir þennan áhugaverða vinkil hv. þingmanns og eins margt annað gott sem frá honum kemur. Hann hefur áhugaverð sjónarmið og ég þakka það.